„Þetta er árás á tjáningarfrelsi“

Sabine er þýsk en hefur búið á Íslandi í 23 …
Sabine er þýsk en hefur búið á Íslandi í 23 ár. Samsett mynd

Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir tjáningarfrelsi Þjóðverja sem styðja Palestínu í átökunum við Ísrael skert.

Hún segir dæmi þess að fólki hafi verið sagt upp starfi eftir að hafa birt Facebook-færslur til stuðnings Palestínu. Þá hafi ýmsir þýskir stjórnmálamenn, bæði hægri- og vinstrimenn, viðrað þá hugmynd hvort hægt sé að hafna umsóknum um ríkisborgararétt frá einstaklingum sem hafa gagnrýnt stjórnvöld í Ísrael. Að sögn Sabine er jafnvel hin minnsta samkennd með Palestínu túlkað sem gyðingahatur.

„Þetta er árás á tjáningarfrelsi,“ segir Sabine í samtali við mbl.is. 

Hrædd við að vera stimpluð sem hryðjuverkamenn

Sabine, sem er þýsk en hefur búið á Íslandi í 23 ár, segir þennan mikla stuðning Þjóðverja við Ísrael að einhverju leyti skiljanlegan þar sem það þyki einstaklega slæmt að vera kallaður gyðingahatari þar í landi í ljósi sögunnar. Hún telur þó mikilvægt að horfa gagnrýnum augum á ástandið.

„Maður hefur miklar áhyggjur af fólki af arabískum uppruna sem býr hér og fær ekki að tjá sig. Það er hrætt við að tjá sig á samfélagsmiðlum og taka þátt í umræðunni og vera strax stimplað sem hryðjuverkamaður,“ segir Sabine.

Sabine nefnir þó að gyðingahatur sé að færast í aukana í Þýskalandi. Hún telur það einnig vera mikið áhyggjuefni og nefnir að lögreglumenn séu alltaf á vakt fyrir framan bænahús gyðinga.

Stuðningsmenn Palestínu í Berlín létu í sér heyra á fimmtudaginn.
Stuðningsmenn Palestínu í Berlín létu í sér heyra á fimmtudaginn. AFP/John Macdougall

Einsleitur fréttaflutningur

Sabine segir lögreglu hafa afskipti af fólki sem ber fána Palestínu á almannafæri og að mótmæli séu annað hvort bönnuð eða leyst upp um leið og ákveðinn fjöldi mætir. Hún segir þó að ekki sé hægt að líða ofbeldisfull mótmæli eins og brutust út í Berlín á fimmtudaginn. 

Þar særðust 65 þýsk­ir lög­regluþjón­ar eft­ir að hafa verið kallaðir út á sam­stöðufund með Palestínu­mönn­um. Lög­regluþjón­arn­ir særðust eft­ir steinakast, eld­fim­an vökva og ann­ars kon­ar and­spyrnu af hálfu mót­mæl­enda.

Sabine bendir einnig á að fréttaflutningur þýskra miðla af mótmælum til stuðnings Palestínu sé mjög neikvæður. Þá bjóði flestir þýskir fréttaskýringarþættir einungis stuðningsfólki Ísraels í umræður um átökin og sé fréttaflutningurinn því mjög einsleitur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert