Félag atvinnurekenda krefst þess að flugferðir sem bókaðar eru innan rammasamnings ríkisstofnana veiti ekki vildarpunkta, sem ríkisstarfsmenn geta nýtt í persónulega þágu. Það nefnist spilling að ríkisstarfsmenn þiggi persónuleg fríðindi vegna ferða sem skattgreiðendur kosta.
Þetta segir í erindi Félags atvinnurekenda (FA) til forseta Alþingis og fjármálaráðherra. Erindið er sent í framhaldi af fréttaflutningi um að alþingismenn og aðrir starfsmenn ríkisins fái vildarpunkta til persónulegra nota vegna flugferða, sem skattgreiðendur greiða fyrir þá.
Eins og mbl.is greindi frá fyrir helgi keypti Alþingi á síðasta ári flugmiða af Icelandair fyrir 20,9 milljónir króna en einungis fyrir 500 þúsund krónur af Play. Icelandair býður viðskiptavinum sínum upp á að safna vildarpunktum þegar ferðir eru bókaðar með flugfélaginu. Play býður ekki upp á sömu þjónustu.
Um helgina skrifaði Sara Lind Guðbergsdóttir, forstjóri Ríkiskaupa ríkiskaupa, í færslu á LinkedIn að vildarpunktarnir gætu skapað freistnivanda hjá ríkisstarfsmönnum sem væru að bóka flug að „kaupa flugið heldur hjá þeim aðila sem býður þeim möguleikann á hlunnindum sem það getur síðar nýtt til persónulegra nota“.
Í grein Söru Lindar sagði að rammasamningur við íslensku flugfélögin um flugfargjöld ríkisstarfsmanna væri í endurskoðun.
„Að mati FA ætti að gera þá kröfu við nýtt útboð að flugfélög sjái til þess að ferðir, sem bókaðar eru innan rammasamningsins, veiti ekki vildarpunkta eða önnur sérkjör, sem ríkisstarfsmenn geta nýtt í persónulega þágu. Ekki ætti að þurfa flókna forritunarvinnu til að koma slíku í kring,“ segir í erindi FA.
Sara Lind sagði jafnframt í grein sinni að persónulegur ávinningur ætti ekki og mætti ekki hafa áhrif og stofnanir ríkisins þyrftu því að brýna fyrir starfsfólki sínu að slíkir hvatar mættu ekki hafa áhrif við val á flugferðum.FA bendir á að þetta þýði að sem stendur hvíli ábyrgðin á einstökum ríkisstofnunum.
FA vill vekja athygli þingforseta og fjármálaráðherra á því að það er ekki aðeins „sjálfsögð krafa“ að þingið og aðrar ríkisstofnanir velji ævinlega hagkvæmasta kostinn þegar valið er flug fyrir starfsmenn.
Það að þingmenn og aðrir ríkisstarfsmenn þiggi vildarpunkta fyrir að beina viðskiptum til Icelandair eða annarra flugfélaga með tryggðarkerfi sé einfaldlega bæði ólöglegt og fari gegn siðareglum þingsins, siðareglum starfsmanna stjórnarráðsins og almennum siðareglum ríkisstarfsmanna.
„Að þiggja þannig persónuleg fríðindi vegna ferða sem skattgreiðendur kosta, heitir spilling og lög og siðareglur eiga að hindra slíkt,“ segir í erindi FA.