Fundahöld oddvita ríkisstjórnarinnar í fyrri viku snerust fyrst og fremst um erindi ríkisstjórnarinnar, en þar eru efnahagsmálin í forgrunni, verðbólga, vextir og vinnumarkaður, segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir að þar hafi sjálft ríkissjórnarsamstarfið verið undir.
Sigurður Ingi bendir á að þótt samstarfið reynist örðugra, þá þurfi menn að hugleiða afleiðingar þess að hlaupa frá því. Hann spyr hvort það hefði reynst farsælla að efna til kosninga við þessar aðstæður eða hvort einhverjir aðrir flokkar á þingi gætu myndað betri ríkisstjórn til þess að fást við aðsteðjandi vanda.
Hann segir eðlilegt að flokkarnir togist á, þeir hafi ákveðið að fara í samstarf ekki sameiningu flokkanna, og að skiljanlegt sé að það gerist frekar eftir því sem teygist úr samstarfinu. Eftir sem áður starfi þeir saman, samstarfið hafi gengið vel. „Okkur hefur gengið býsna vel,“ ítrekar hann.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu viðtali við forystumenn ríkisstjórnarflokkanna á vettvangi Dagmála, sem tekið var upp í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Þar spurðu blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson oddvitana út í samstarfið, stöðuna og stefnuna framundan.
Dagmál eru streymi Morgunblaðsins á netinu og eru opin öllum áskrifendum blaðsins. Viðtalið allt má sjá með því að smella hér.