Aðkoma stjórnvalda að næstu kjaraviðræðum ræður úrslitum um hvort hægt sé að ganga frá samningum án átaka, að mati Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins (SGS). Hann segir að létta þurfi skattbyrgði lágtekjufólks og að stjórnvöld þurfi að hætta „dekri“ við viðskiptabankana þrjá.
Þá eigi einnig að gera Landsbankann að svokölluðum samfélagsbanka.
Níunda þing SGS er nú haldið á Hótel Reykjavík Natura og stendur yfir fram á föstudag. Vilhjálmur flutti setningarræðu þar sem hann fjallaði um þau verkefni sem blasa við verkalýðshreyfingunni í næstu kjarasamningsviðræðum.
Vilhjálmur hóf ræðu sína aftur á móti með því að nefna úrsögn stéttafélagsins Eflingar úr SGS. Í maí sagði Efling sig úr sambandinu eftir kosningu félagsmanna og hlaut þannig beina aðild að Alþýðusambandinu (ASÍ). Þó greiddu aðeins 5% félagsmanna atkvæði.
„Hefur þessi ákvörðun Eflingar slæm áhrif á framtíð SGS? Mitt svar við því er hvellskýrt: Nei, enda höfum við endurskipulagt okkur og SGS er fjárhagslega sem félagslega afar sterkt nú sem hingað til,“ sagði Vilhjálmur.
„Vissulega er það dapurlegt þegar aðildarfélag telur hagsmunum sínum betur borgið eitt og sér heldur en innan heildarsamtaka eins og Starfsgreinasambandsins. En það ber ætíð að virða sjálfstæðan ákvörðunarrétt stéttarfélaganna og það gerum við að sjálfsögðu og óska ég félagsfólki Eflingar velfarnaðar í sinni baráttu.“
Vilhjálmur sagði að SGS þyrfti aftur að leggja áherslu á að samið væri með krónutöluhækkunum í komandi kjarasamningum en ekki prósentuhækkunum.
„Við vitum öll að prósentuhækkanir eru blekking og nægir í því samhengi að nefna að forstjóri sem er með 3 milljónir á mánuði fær 180 þúsund króna hækkun á launum sínum miðað við 6% launahækkun, á meðan verkamaður á lágmarkstaxta fær 24 þúsund,“ sagði Vilhjálmur.
„Á þessu sést sú blekking sem á sér stað þegar samið er með prósentum og munum að ekkert okkar fer með prósentur út í búð.“
Vilhjálmur sagði það ljóst að stjórnvöld þyrftu að koma myndarlega að borðinu í komandi kjaraviðræðum. Þörf væri á þjóðarátaki í húsnæðismálum enda séu fasteignamarkaðurinn og leigumarkaðurinn „eins og vígvöllur um þessar mundir“.
„Í komandi kjarasamningum verðum við að vera með skýlausa kröfu á stjórnvöld um að létta enn frekar á skattbyrði lágtekjufólks og koma þarf mun betur til móts við tekjulágar fjölskyldur í formi hærri barnabóta, húsaleigubóta og vaxtabóta. Það þarf einnig að tryggja að persónuafslátturinn fylgi ætíð hækkun launavísitölunnar,“ sagði verkalýðsforinginn.
Þá væri heldur ekki hægt að horfa framhjá því að aðkoma stjórnvalda að kjaraviðræðum ráði úrslitum um hvort hægt verði að ganga frá samningum án átaka. „Það skiptir litlu máli fyrir okkur í verkalýðshreyfingunni að semja hér um 20, 30, 40, 50 eða 60 þúsund króna launahækkun á mánuði ef allt annað hækkar um miklu meira en það sem við erum að semja um.“
Vilhjálmur sagði einnig að ráðast þyrfti í róttækar kerfisbreytingar sem lúti að því að „stjórnvöld hætti þessu dekri við fjármálaöflin og þá sem eiga fjármagnið hér á landi“ og standi frekar vörð um alþýðu þessa lands.
Vitnar hann þar í viðskiptabankana þrjá, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann, „sem hafa ár eftir ár skilað uppundir 100 milljörðum í hagnað, hagnað sem byggist á okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum“.
Sagði Vilhjálmur þá að því dekri verði linnt t.d. með því að að stjórnvöld geri Landsbanka Íslands að samfélagsbanka og að arðsemismarkið bankans verði lækkað.
„En eitt er víst, að launahækkanir einar og sér munu svo sannarlega ekki duga til og því er aðkoma stjórnvalda ekki bara nauðsynleg heldur bráðnauðsynleg eins og ítrekað hefur komið fram í þessu ávarpi. Munum að það er svo sannarlega hægt að auka ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna með fleiri þáttum en bara launahækkunum enda sýndi og sannaði Lífskjarasamningurinn árið 2019 það.“