Vonar að hvatningin nái út fyrir landsteinana

Baráttufundur vegna kvennaverkfalls var haldinn í gær. Tugþúsundir komu saman …
Baráttufundur vegna kvennaverkfalls var haldinn í gær. Tugþúsundir komu saman við Arnarhól. Samsett mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir verkfall kvenna og kvára í gær vera hvatningu til stjórnvalda að gera betur í jafnréttismálum. Enn sé tækifæri til þess að ná fram fullu jafnrétti fyrir árið 2030. 

Vonar hún jafnframt að hvatningin nái út fyrir landsteinana en að óbreyttu verði fullu jafnrétti ekki náð á heimsvísu fyrr en eftir 300 ár. 

Tugir þúsunda kvenna og kvára lögðu niður störf í gær og gengu á kröfufund við Arnarhól. Þá voru samstöðufundir haldnir um land allt.

Katrín lagði sjálf niður störf í gær og boðaði ekki ríkisstjórnarfund, líkt og venjan er á þriðjudögum.

„Ég viðurkenni það alveg, ég svaraði nokkrum tölvupóstum í gær,“ segir Katrín í samtali við mbl.is og tekur fram að forsætisráðherra sé í raun alltaf á vaktinni. 

„En það var mikil virðing borin fyrir þessu í forsætisráðuneytinu og það var alveg skýrt að það voru karlmennirnir sem tóku vaktina og þeir gerðu það bara ágætlega.“

Sérstakt að ráðherrann taki þátt

Verkfallið vakti athygli víða um heim og fjölluðu m.a. breskir, bandarískir og indverskir miðlar um daginn. Þótti þá ekki síður merkilegt að forsætisráðherrann tæki þátt.

„Ég held að þeim finnist sérstakt að forsætisráðherra taki þátt í aðgerð sem er auðvitað í grunninn aktívistaaðgerð en ég var einmitt að segja þeim að þetta er það sem hefur einkennt íslenska kvennabaráttu frá upphafi vega.

Viðburðurinn 1975 endurspeglaði þetta, þar tóku konur úr mjög ólíkum geirum samfélagsins þátt til að sýna þessa samstöðu og það var bara nákvæmlega sama og gerðist í gær. Það var þessi rosalega samstaða konur og kvára, það voru hundrað þúsund manns mætt á Arnarhól, mestmegnis konur, sem endurspeglar að við erum einhvern veginn öll hluti af jafnréttisbaráttunni alveg óháð því hvaða stöðu við gegnum í samfélaginu,“ segir Katrín.

„Auðvitað er maður að vinna í þessu í pólitíkinni en þessi aðgerð í gær var samstöðu aðgerð og þar finnst mér að ég sem stjórnmálamaður og femínisti eigi að taka þátt.“

Fjórðungur Íslendinga á einum bletti

Hún segir enn tækifæri til að ná fram fullu jafnrétti fyrir árið 2030. Samstöðufundurinn í gær sé hvatning til stjórnvalda til að gera betur.

„Við erum búin að vera að minnka kynbundinn launamun, við erum búin að vera að ráðast í aðgerðir, við erum með ofboðslega góða verkfærakistu til að ná þessum markmiðum ef samfélagið allt tekur þátt. Það er sjaldgæft að við séum með fjórðung samfélagsins á einum bletti til að sýna samstöðu. Á sama tíma voru samstöðufundir hringinn í kringum landið.“

Katrín vonar að verkfallið eigi ekki síður eftir að verða hvatning fyrir önnur ríki.

„Þar er nú staðan þannig að ef við höldum áfram á sama hraða þá verður fullu jafnrétti náð á heimsvísu eftir 300 ár ef þessi þróun heldur áfram á sama hraða.“

Kemur þeim ekki á óvart

Aðspurð kveðst Katrín ekki hafa fengið skilaboð frá erlendum kollegum sínum í kjölfar fregna gærdagsins.

„Nei, en ég held að þetta komi þeim ekkert á óvart,“ segir Katrín og hlær við. 

„Ég nota öll tækifæri sem ég á í alþjóðlegu samstarfi til þess að lyfta þessum fána af því að ég lít á kynjajafnrétti sem undirstöðu að svo mörgu öðru, þegar að við tölum um loftslagsmál, þegar að við tölum um stríðsátök í heiminum – og hverjir eru þar fórnarlömb? Hverjir eru ekki í samtalinu við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar um frið og stríð? Það eru konur. Þannig að ég hef notað tækifærið alltaf þegar að ég ræði um efnahagsmál, samfélagsmál, loftslagsmál og öryggis- og varnarmál, að halda þessum jafnréttisfána á lofti því hann á alltaf við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert