Áhugavert en „pínu neyðarlegt“ í viðtali í Dagmálum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir. Samsett mynd/mbl.is

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gerði nýlegt viðtal við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í Dagmálum, að umfjöllunarefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Sagðist Þorgerður hafa hlustað á viðtalið, sem var undir fyrirsögninni „Endurnýjað erindi ríkisstjórnar“ og fundist það áhugavert, en á sama tíma hafi það verið „pínu neyðarlegt á hvaða stað þessi ríkisstjórn er.“

Sagði Þorgerður að þáttastjórnendur, sem voru þeir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson, hafi ítrekað spurt þríeykið hvert erindi ríkisstjórnarinnar væri og hvernig leysa ætti ágreiningsmál innan ríkisstjórnarinnar. Lítið hafi hins vegar verið um svör.

Þorgerður sagði formennina í raun hafa rakið í löngu máli sagnfræðilegan grunn ríkisstjórnarsamstarfsins í stað þess að tala um raunverulegt erindi hennar. Svör þeirra við hvað hafi verið rætt á vinnufundinum á Þingvöllum hafi einfaldlega verið að verið væri að endurnýja erindi flokkanna.

Svör þríeykisins voru Þorgerði ekki alveg að skapi og sagði hún lítið hafa komið fram um helstu ágreiningsmálin. „Það var ekkert talað um verðbólguna, vextina, hvernig á að leysa fjárlagahallann. Það var ekki talað um orkumálin, sjávarútvegsmálin, hvalinn, kvótann, fiskeldið, við þekkjum þetta, útlendingamálin algjörlega látin vera, landbúnaðarmálin — engin skilaboð til bænda sem þurfa nauðsynlega á skilaboðum að halda. Verður áframhald á bankasölu? Veit það ekki. Ekki sömu skilaboð frá ríkisstjórninni. Samgöngusáttmálinn — maður spyr núna: Má enn þá segja borgarlína við ríkisstjórnarborðið? Má það enn þá?“ sagði Þorgerður.

Lauk hún máli sínu á því að segja ríkisstjórnina skulda þjóðinni að talað yrði skýrt um erfiðu samtölin.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók til andsvara, en sagðist ekki hafa orðið vör við neina eiginlega fyrirspurn frá Þorgerði þrátt fyrir óundirbúinn fyrirspurnartíma. Sagðist hún hins vegar hrósa Þorgerði fyrir að hafa „horft á þá klukkustund af gæðaefni” sem viðtalið hafi verið.

Katrín var þó ekki alveg til í að taka því sem gefnu sem Þorgerður lagði á borð og svaraði því til að hún hefði greinilega misst af einhverjum punktum í viðtalinu. Nefndi Katrín meðal annars að sannarlega hafi verið rætt um fiskeldi og tillögur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í þeim efnum.

Þá sagði Katrín mikið hafa verið rætt um dýrtíðina vegna verðbólgunnar og aðgerðir vegna þeirrar stöðu.

Þróuðust síðari andsvör þeirra svo út í frekara karp um verðbólguna og ríkisfjármálin þar sem Þorgerður sakaði ríkisstjórnina um lausatök í ríkisfjármálum sem orsökuðu verðbólgu. Katrín sagði ríkisstjórnina hins vegar hafa skýra sýn í þeim efnum og beita aðhaldi í ríkisrekstri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert