Tveimur starfsmönnum Vegagerðarinnar var sagt upp í gær og voru uppsagnirnar liður í yfirstandandi hagræðingaraðgerðum að sögn Bergþóru Þorkelsdóttur forstjóra.
„Í sjálfu sér er það endanlegt þar til eitthvað annað verður ákveðið, það er ekkert annað í pípunum,“ segir forstjórinn, innt eftir því hvort reiknað sé með frekari uppsögnum hjá stofnuninni.
„Við erum bara að vinna okkur í gegnum þetta, þetta er stórt apparat sem við erum í og við munum svo bara leggja það fyrir ráðuneytið hvernig við getum mætt þeirra kröfum. Stjórnvöld eru að biðja ríkisstofnanir að grípa til vissra aðgerða eins og fólk hefur orðið vart við og við reynum að verða við því og skoða hvernig við getum gert sem mest í þeirra anda án þess að skerða þjónustuna við vegfarendur,“ heldur Bergþóra áfram.
„Það er aldrei gaman að þurfa að grípa til þessara ráðstafana en þetta er staðan og svo þurfum við bara að reyna að halda áfram,“ segir forstjórinn að lokum.