Skafti Ingimarsson, nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, hefur sett fram nýja kenningu um það hvers vegna Íslendingar gengu til samninga við Noregskonung árið 1262.
Heimildir benda til þess að það hafi gerst í skugga nær fjögurra ára samfelldra harðinda og hallæris sem gengu yfir landið árin 1258-1261 í kjölfar Samalas-eldgossins mikla árið 1257.
Gamli sáttmáli fól í sér að konungur Noregs væri jafnframt konungur Íslands og að Íslendingar væru skattþegnar Noregskonungs.
Á móti skuldbatt Noregskonungur sig til að halda uppi siglingum til Íslands og skyldu ekki færri en sex skip sigla milli landanna tvö næstu sumur, en þaðan í frá sem konungi og bestu bændum landsins þótti henta landinu.
Stundum hefur verið litið á gjörninginn sem upphaf hnignunar í sögu Íslendinga sem náði hámarki þegar þeir afsöluðu sér þjóðréttindum sínum að fullu með einveldistöku á Kópavogsfundi árið 1662.
Eitt af því sem einkennt hefur tilraunir fræðimanna til að útskýra tilurð og tilgang skipaákvæðis Gamla sáttmála í eina og hálfa öld er tilhneiging til að setja ákvæðið í pólitískt samhengi og túlka það út frá þjóðernissjónarmiðum. Íslendingar gegn Norðmönnum, íslenskir höfðingjar gegn Hákoni gamla Noregskonungi. „Þjóðernissinnaða söguskoðunin er sú að konungur hafi náð Íslandi undir norsk yfirráð með klækjabrögðum og þá er Gamli sáttmáli túlkaður í því ljósi,“ segir Skafti.
Fljótlega eftir að Skafti hóf að rannsaka íslenskar heimildir þar sem segir frá aðdraganda sáttmálans kom í ljós að meira hékk á spýtunni. „Ég áttaði mig fljótlega á því að skipaákvæði Gamla sáttmála hefur ekki verið skoðað í samhengi við lýsingar sem fram koma í íslenskum annálum og Sturlungasögu á árferði á Íslandi um það leyti er goðaveldið féll undir Noregskonung. Kenning mín er fyrir vikið ný af nálinni.“
Hvernig komstu á það spor?
„Það er þekkt að stórgos á Íslandi, eins og Eldgjárgosið árin 939-940 og Skaftáreldar árin 1783-1784, höfðu mikil áhrif á loftslag í Evrópu. Talið er að þúsundir manna hafi látist í álfunni í kjölfar Skaftárelda. Um þetta hefur verið skrifað heima og erlendis. Menn hafa á hinn bóginn lítið skoðað áhrif stórra erlendra sprengigosa á veðurfar og loftslag á Íslandi. Ég sá að þarna var óplægður akur og fannst það spennandi. Fyrir fram átti ég ekki von á að feta þessa slóð – sem gerir þetta ennþá skemmtilegra,“ segir Skafti.
Skafta fannst áhugavert að fræðimenn skyldu ekki setja Gamla sáttmála í samhengi við umhverfisþætti, sérstaklega í ljósi þess að íslenskir annálar greina frá hafís og harðindum á Íslandi árin 1258-1261 og jafnvel lengur. „Heimildirnar eru að mínu mati afdráttarlausar hvað þetta varðar, enda segir í fimm annálum að hafís hafi legið umhverfis landið vorið 1261, það er aðeins ári áður en sáttmálinn var gerður. Þessi staðreynd setur skipaákvæðið í nýtt ljós, en það var aðeins sett til tveggja ára. Síðan átti að semja upp á nýtt.“
Þannig að konungur hefur gert sér grein fyrir því að siglingar til Íslands voru torsóttar um það leyti er sáttmálinn var gerður?
„Já, það er enginn vafi á því. Ég tel að íslenskir höfðingjar og Hákon konungur hafi verið að bregðast við tímabundnum erfiðleikum sem skapast höfðu í landinu í kjölfar nær samfelldra fjögurra ára harðinda sem gengið höfðu yfir áður en sáttmálinn var gerður.“
Skafti velti því fyrir sér hvað hefði mögulega valdið þessum harðindum og það leiddi hann á nýja slóð. Við erum að tala um Samalas-eldgosið mikla á eyjunni Lombok í Indónesíu árið 1257, en það er eitt stærsta sprengigos sem orðið hefur frá lokum síðustu ísaldar.
„Það eru liðin um 30 ár frá því að vísindamenn greindu brennisteinssporið fyrst í ískjörnum úr Grænlandsjökli og Suðurskautslandinu. Í framhaldinu náðu þeir að tímasetja gosið árið 1257. Það var hins vegar ekki fyrr en 2013 að þeim tókst að staðsetja gosið á Lombok. Töluvert hefur verið skrifað um gosið og afleiðingar þess, einkum af jarðvísindamönnum en einnig af sagnfræðingum. Komið hefur í ljós að harðindi stöfuðu af gosinu víða um heim, þar á meðal í Evrópu. Þau voru því ekki bundin við Ísland.“
Nánar er rætt við Skafta í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.