Lítill viðbragðstími ef kvika kemur upp

Þorvaldur segir að huga þurfi að innviðum nærri Þorbirni.
Þorvaldur segir að huga þurfi að innviðum nærri Þorbirni. Samsett mynd

Bláa lónið, Svartsengi og Grindavík standa nærri miðju landrissins og kæmi því ekki á óvart ef grípa þyrfti til rýminga þar, að sögn Þorvalds Þórðarsonar eldfjallafræðings.

Landris hófst í gær nærri Svartsengi, norðvestan við Þorbjörn á Reykjanesskaga, töluvert vestar en Fagradalsfjall. Viðbragðstími væri því lítill ef kvika kemur upp að sögn Þorvaldar.

„Við erum komin með landris þarna og það er tiltölulega hratt, þrír sentimetrar á 24 tímum,“ segir Þorvaldur. Land hefur risið á svæðinu fimm sinnum síðan árið 2020 en hraðinn er nú töluvert meiri en í fyrri skiptin.

„Menn þurfa virkilega að setjast niður“

„Þarna gaus á síðasta eldgosatímabili, í svokölluðum Reykjaneseldum,“ nefnir Þorvaldur og bætir við:

„Það besta sem við gerum er að setjast niður og sjá hvernig við getum brugðist við ef það verður eldgos á þessum stað. Hvað við getum gert til þess að vernda þessa mikilvægu innviði sem eru þarna í nágrenninu.“

Orkuverið í Svartsengi er skammt undan en það sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni en auk þess er Bláa lónið skammt frá miðju landrissins.

Ekki öruggt að kvikan komi upp

„Og enn mikilvægara en það, Grindavík. Menn þurfa virkilega að setjast niður og átta sig á hvað við getum gert ef það kemur til eldgoss á þessum stað. En það er náttúrulega ekkert öruggt,“ segir Þorvaldur en enginn órói hefur mælst á svæðinu enn sem komið er.

„Ef það gýs á þeim stað sem landrisið er núna þá kæmi ekkert á óvart að það þyrfti að rýma svæðið.“ 

Þorvaldur segir að huga þurfi að viðbrögðum fyrr en síðar.

„Við þurfum að vera tilbúin. Ef það kæmi til goss á þessu svæði þá væri viðbragðstíminn ekki mikill.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka