Katrín Jakobsdóttir tekur því fjarri að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sé í úlfakreppu og vill ekki viðurkenna að hún hafi farið út fyrir ramma laganna með ólögmætum samningi sínum við Samkeppniseftirlitið, en játar að umboð hennar til breytingar á kvótakerfinu sé takmarkað.
Bjarni útilokar stuðning sinn við uppstokkun fiskveiðistjórnarkerfisins, líkt og matvælaráðherra hefur boðað lagafrumvarp um í janúar 2024, þrátt fyrir að ekki sé um slíkt kveðið í stjórnarsáttmála. Þar hefur Svandís boðað hækkun á veiðigjaldi, innköllun aflaheimilda og uppboð á þeim.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu viðtali við forystumenn ríkisstjórnarflokkanna á vettvangi Dagmála, sem tekið var upp í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Þar spurðu blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson oddvitana út í samstarfið, stöðuna og stefnuna fram undan.
Dagmál eru streymi Morgunblaðsins á netinu og eru opin öllum áskrifendum blaðsins. Viðtalið allt má sjá með því að smella hér.