Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur Hussein fjölskyldunnar, útilokar ekki að höfðað verði nýtt dómsmál í kjölfar synjunar stjórnvalda á síðari umsóknum fjölskyldunnar um alþjóðlega vernd á Íslandi.
„Við erum ákaflega ósátt við málsmeðferðina núna. Kærunefnd ákveður það í rauninni að virða að vettugi tilmæli réttindagæslumanns fatlaðra.
Þó það hafi ekki verið tekin ákvörðun um það þá útiloka ég það alls ekki að það verði höfðað nýtt mál. Ég held að þessi málsmeðferð standist ekki lög,“ segir Albert í samtali við mbl.is.
Hussein Hussein, fatlaður maður frá Írak, og fjölskylda hans hefur verið synjað um alþjóðlega vernd tvisvar og synjaði Alþingi umsókn þeirra um ríkisborgararétt fyrr á árinu.
Fjölskyldan fer sjálfviljug úr landi 11. nóvember en ástæða þess er fyrst og fremst vegna aðferða lögreglu þegar þeim var síðast vísað úr landi.
„Þau áttu fund með útlendingastofnun á föstudaginn og það er skipulögð brottför frá landinu 11. nóvember. Eftir mótmæli fær fjölskyldan að vera saman hérna á Íslandi þangað til að það kemur að þeim tímapunkti,“ segir Albert.
„Nú er fjölskyldan að meðtaka þessar fréttir og ákveða hvað er best fyrir þau að gera í framtíðinni.“