Forsætisráðuneytið fékk að vita með óformlegum hætti að Ísland hygðist sitja hjá í atkvæðagreiðslu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um ályktun Jórdaníu með klukkutíma og 32 mínútna fyrirvara.
Ályktun Jórdaníu kvað á um vopnahlé á Gasasvæðinu og voru atkvæði um ályktunina greidd á allsherjarþingi SÞ á föstudaginn.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu var forsætisráðuneytið fyrst upplýst um afstöðu Íslands með óformlegum hætti klukkan 18.17 á föstudaginn. 24 mínútum síðar, eða klukkan 18.41, var svo sendur formlegur tölvupóstur á forsætisráðuneytið um afstöðuna og fylgdi með atkvæðaskýring í þeim pósti.
Í skriflegu svari frá aðstoðarmanni Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til mbl.is fyrr í dag kom fram að Katrín hefði verið upplýst um afstöðuna 11 mínútum áður en atkvæðagreiðslufundur hófst klukkan 19 á föstudaginn. Bárust þessar upplýsingar forsætisráðherra frá alþjóðafulltrúa forsætisráðuneytisins.
Atkvæðagreiðslufundurinn hjá Sameinuðu þjóðunum hófst eins og fyrr segir klukkan 19 en samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu byrjaði atkvæðagreiðsla ekki fyrr en klukkan 19.49. Þá var liðinn klukkutími og 32 mínútur frá því að forsætisráðuneytið var fyrst óformlega upplýst um afstöðu Íslands, og 68 mínútur síðan forsætisráðuneytið var formlega upplýst um afstöðuna.
„Forsætisráðherra sá póstinn eftir að atkvæðagreiðsla var hafin en ekki var óskað eftir afstöðu hennar til þessarar afstöðu utanríkisráðuneytisins. Því liggur algjörlega ljóst fyrir að ekki var haft sérstakt samráð við forsætisráðherra um þessa afstöðu eins og fram kom í máli hennar í fréttum Ríkisútvarpsins í gær,“ segir í svari frá aðstoðarmanni Katrínar.
Uppfært klukkan 21.49
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að ákvörðun Bjarna hafi legið fyrir klukkan 17.12 á föstudaginn og var þá unnið að lokadrögum atkvæðaskýringar.
„Í upphafi dags föstudaginn 27. október að staðartíma, eða um miðjan dag á íslenskum tíma, lá fyrir að ekki yrðu frekari breytingar á tillögu Jórdaníu og voru breytingartillaga Kanada og tillaga Jórdaníu sendar utanríkisráðuneytinu kl. 13:20 að íslenskum tíma. Í kjölfarið var efni tekið saman fyrir utanríkisráðherra, þar með talið afstaða annarra ríkja sem var að mótast á þessum tíma, og honum send gögn kl. 15:44,“ kemur fram í tilkynningunni.