Saga jarðhræringa í Svartsengi

Land hefur tekið að rísa að nýju á Reykjanesskaga og …
Land hefur tekið að rísa að nýju á Reykjanesskaga og það hratt. Miðja landrissins er nærri Bláa lóninu og Svartsengi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Land hefur tekið að rísa að nýju á Reykjanesskaga og það hratt, eins og greint var frá um helgina. Miðja landrissins er nærri Bláa lóninu og Svartsengi.

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir þróunina framhald af því sem hefur verið í gangi síðustu ár og að eðlilegt sé að virknin færi sig á milli kerfa, þar sem allur Reykjanesskagi sé nú undir.

Segir hann þá staðreynd þó valda áhyggjum, einkum ef virknin færi sig yfir í Eldvörp (Svartsengiskerfið), forna gígaröð vestnorðvestan af Grindavík. „Þá er styttra í mikilvæga innviði og mannvirki.“

12-15 misgömul hraun innan kerfisins

Sex eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga. Reykjaneskerfi er vestast, þá Svartsengiskerfi, Fagradalsfjallskerfi, Krýsuvíkurkerfi og Brennisteinsfjallakerfi. Hengilskerfi er svo austast.

Svartsengiskerfi er um sjö kílómetra breitt og að minnsta kosti 30 kílómetra langt, allt á landi. Gosstöðvar eru á syðstu 17 kílómetrum kerfisins en í kerfinu hafa aðeins orðið hraungos á gossprungum eftir að land varð íslaust.

Kerfið skiptist í tvær gosreinar, Svartsengisrein og Eldvarparein. Oftast hefur gosið á Svartsengisrein sem er milli Þorbjarnarfells og Sundhnúks. Eldvarparein liggur um Eldvörp.

Alls hafa verið aðgreind 12-15 misgömul hraun innan kerfisins. Nokkur komu upp í kringum ísaldarlokin en annars er lítið vitað um aldursdreifingu þeirra fyrr en kemur að þeim sem eru yngri en 3.500 ára.

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar …
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir. Mynd/Vísindavefurinn

Yngstu hraunin síðan skömmu eftir fall miðaldalagsins

Hraunin úr gosunum eru misstór en tvö þeirra yngstu eru líklega stærst. Í Svartsengisreininni hefur gosið tvisvar á síðustu rúmum 3.000 árum en þrisvar í Eldvarpareininni. Yngstu hraunin eru þrjú, frá því skömmu eftir að miðaldalagið féll.

Eldvarpahraun er þeirra vestast. Gossprunga þess nær átta kílómetra til norðausturs frá sjó og er hraunið um 20 ferkílómetrar að stærð.

Illahraun er komið úr stuttri gígaröð um 1.200 metrum austan við Eldvörp og liggja hraunin saman á kafla. Það er um þrír ferkílómetrar að stærð. Orkuverið í Svartsengi stendur á Illahrauni og Bláa lónið stendur við norðurhjara þess.

Arnarseturhraun er norðaustast og kom meginhluti þess upp á 500 metra langri gossprungu í Gíghæð. Arnarseturshraun er um 22 ferkílómetrar að stærð. Gossprungukerfið í þessum hraunum er 14 kílómetra langt og samanlagt flatarmál þeirra er um 45 ferkílómetrar.

Áhyggjur löngu tímabærar

Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði, seg­ir löngu tíma­bært að hafa áhyggj­ur af mögu­legu eld­gosi í grennd við Bláa lónið og Svartsengi. Ekki þurfi að hafa mörg orð um þær af­leiðing­ar sem það gæti haft á innviði og byggð.

Land hef­ur risið hratt við fjallið Þor­björn og seg­ir Þor­vald­ur áhuga­vert að á sama tíma hafi hægst á landris­inu við Fagra­dals­fjall. Það gæti þýtt að kvik­an sé frek­ar að leita upp í grennd við Þor­björn en Fagra­dals­fjall.

Stór kviku­geym­ir er und­ir Reykja­nesskaga, á um 10 til 15 kíló­metra dýpi að sögn Þor­vald­ar.

„Það er þó al­veg ómögu­legt að segja til um hvort það komi eld­gos þar [við Þor­björn] eða við Fagra­dals­fjall. Tím­inn verður bara að leiða það í ljós,“ seg­ir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka