Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar og 2. varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir sérkennilegt að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra séu ekki einhuga varðandi atkvæðagreiðslu Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Þar ákvað Ísland að sitja hjá á föstudag þegar greidd voru atkvæði um tillögu Jórdaníu um vopnahlé á Gasasvæðinu.
„Það sem er líka sérkennilegt við þetta er að fulltrúar ríkisstjórnarinnar eru ekki einhuga í málinu. Það hefur komið fram að forsætisráðherra er á sömu skoðun og ég, andstæð skoðun utanríkisráðherra, og þingflokkurinn allur,” sagði Logi að loknum fundi utanríkismálanefndar í morgun þar sem Bjarni Benediktsson var gestur.
Nefndi hann að Katrín hefði sagt að ekkert samráð hefði verið haft við sig í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar en að Bjarni hefði aftur á móti sagt að samráð hefði verið haft.
Bjarni greindi frá því í samtali við mbl.is fyrr í dag að afstöðu Íslands hefði verið komið á framfæri við forsætisráðuneytið áður en atkvæðagreiðslan fór fram. Ekki taldi hann þó þörf á sérstöku pólitísku samráði, eins og hann orðaði það.
„Það er auðvitað alveg sjálfstæður hluti sem þarf að skoða, með hvaða hætti birtist ríkisstjórn Íslands fyrir hönd þjóðarinnar. En á endanum er það auðvitað aðalatriðið að þjóðir heims stígi fast til jarðar og reyni að stöðva þennan hrylling sem á sér stað þarna,” sagði Logi um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.
Hann segir að það þurfi að fá botn í hvort það sé rétt að Bjarni hafi farið gegn vilja Katrínar í málinu en einnig hvers vegna samráðið við forsætisráðuneytið sem Bjarni talaði um hafi ekki skilað sér til forsætisráðherra.
„Það leikur hreinlega vafi á því að það sé meirihluti fyrir þessari afstöðu Íslands í þinginu. Það er í sjálfu sér líka alvarlegt,” sagði Logi jafnframt.