„Erfitt er að bregðast við einn, tveir og þrír“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir erfitt að bregðast við ef …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir erfitt að bregðast við ef illa fer við Svartsengi. mbl.is/samsett mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að erfitt sé að bregðast við því ef innviðir láta undan vegna eldvirkni á Reykjanesskaga. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag er engin varahitaveita fyrir Suðurnes frekar en annars staðar á landinu.

Því vekur landris við orkuverið í Svartsengi mönnum ugg og hætta á því að það verði rafmagns- og heitavatnslaust ef illa fer.

Sigurður Ingi segir að innviðahópur sem er undir forsætisráðuneytinu hafi verið í þeirri vinnu að greina stöðuna. „Auðvitað er það þannig að ef alvarlegustu atburðirnir gerast á Svartsengi þá er erfitt að bregðast við því,“ segir ráðherrann.

Hann segir að verkefnið fram undan sé í samvinnu við stofnanir ríkisins og fyrirtæki, að gera viðbragðsáætlun eins og hægt er.

„Það er kalt vatn, heitt vatn og rafmagn sem erfitt er að bregðast við einn, tveir og þrír,“ segir Sigurður Ingi.

Orkuverið við Svartsengi.
Orkuverið við Svartsengi. mbl.is/Hákon

Við búum á Íslandi 

Að sögn Sigurðar snýr vinnan að því að velta því upp enn frekar hvað þurfi til svo hægt sé að bregðast við því ástandi sem kann að skapast.

„Við búum á Íslandi og við getum ekki stjórnað náttúruöflunum. Við getum reynt eins og hægt er að bregðast við en við getum náttúrlega aldrei verið búin að koma upp öllum mögulegum viðbragðstækjum og græjum fyrir alla mögulega atburði sem geta komið upp á Íslandi,“ segir Sigurður Ingi.

Bendir Sigurður á að hitaveitumál séu komin á tíma á fleiri stöðum en á Reykjanesskaga. Þannig hafi skýrsla sem unnin var í orku- og loftlagsráðuneytið leitt í ljós að á of mörgum stöðum um landið séu hitaveitur að missa dampinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert