Ísland í samvinnu við að koma innflytjendum úr landi

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Hafsteinsdóttir og aðrir dómsmálaráðherrar á Norðurlöndunum tilkynntu í dag um áform um skilvirkara kerfi við að senda ólöglega innflytjendur úr landi til upprunalands eða annarra landa eftir atvikum.

Fram kemur í umfjöllun AFP um málið að ráðherrar Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur, Noregs og Íslands hafi skrifað undir samkomulag um aukna samvinnu í málaflokknum. 

Samkomulagið er afrakstur tveggja daga fundarsetu í Kaupmannahöfn fyrir fund Norðurlandaráðs sem settur var í Ósló í gær.

Í því felst m.a. að fulltrúar landanna muni hittast reglulega til að styrkja samvinnu í málaflokknum. Þannig er stefnt að því að koma upp betra samstarfi við þau lönd sem til stendur að flytja fólk til. Hugsunin sé meðal annars að hjálpa fólki við að aðlagast og koma undir sig fótunum í upprunalandi eða því landi sem fólki er vísað til.

Sérstök áhersla á norðurhluta Afríku

Eins stendur til að samræma flugferðir til upprunalands eða annarra landa sem fólk á rætur að rekja til. Þetta verði unnið í samvinnu við Frontex, landamæra og strandgæslustofnun Evrópu.

Þá verður sérstök áhersla lögð á að styðja betur við fólk frá norðurhluta Afríku sem sé fast utan regluverks og þeim hjálpað að komast til síns upprunalands.

Í umfjöllun AFP segir að Danir hafi farið fyrir harðari afstöðu í málaflokknum með tilkomu Mettu Frederiksen í stól forsætisráðherra árið 2019. Önnur Norðurlönd hafi fylgt í þeirra spor með harðari afstöðu í málaflokknum undanfarin ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert