Mögulegt að virknin sé að færast á milli staða

Benedikt segir það hvorki liggja fyrir hvort um kviku sé …
Benedikt segir það hvorki liggja fyrir hvort um kviku sé að ræða, né hversu mikið magn gæti verið um að ræða. mbl.is/Hákon

Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, segir talsverða óvissu ríkja um jarðhræringarnar sem nú eiga sér stað við fjallið Þorbjörn, norðan við Grindavík. 

Hann segist binda vonir við að gervihnattamyndir sem teknar voru fyrr í dag komi til með að varpa frekara ljósi á stöðu mála. 

Möguleiki á kvikuhlaupi

„Við höfum verið að sjá talsvert mikla skjálftavirkni þarna rétt norðan og norðvestan við Þorbjörn og teljum að þetta sé mögulega kvikuhlaup að reyna að komast af stað,“ segir Benedikt. 

„Við sjáum einnig merki um það að það séu hreyfifærslur á GPS-mælum. Við erum í rauninni bara að fylgjast náið með því núna og hvernig þetta þróast, hvort það sé raunverulega að byrja kvikuhlaup þarna eða hvort þetta stoppi bara.

Þetta kemur í hviðum, þannig að svona er staðan í dag. En við erum ekki að sjá nein merki þess að kvika sé nærri yfirborði, þetta er ennþá allt á sirka fjögurra kílómetra dýpi.“

Margt eigi eftir að koma í ljós

Benedikt segir landris á svæðinu hafa haldist nokkuð stöðugt síðan í gær. „Hreyfingarnar sem við sjáum núna virðast vera kvika að reyna að koma sér út úr þessum kvikugeymi eða koma sér eitthvað annað, annaðhvort lárétt eða upp.“

Hann segist gera ráð fyrir því að um sé að ræða kviku undir yfirborði Þorbjarnar. Hvorki sé þó hægt að segja til um hvort sú sé raunin að svo stöddu, né um hversu mikið magn sé að ræða. 

Þá sýni Fagradalsfjall að öllum líkindum enn þá fram á áframhaldandi þenslumerki. 

„Við erum ekki farin að sjá merki um að það hafi hætt ennþá, en það er mögulegt að virknin sé hreinlega að færast á milli staða, eða að við séum með virkni á báðum stöðum, það á eftir að koma í ljós.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert