„Margar konur hafa sent okkur sögur og sagt okkur að þær hafi bara gefist upp og skilið,“ segir Hulda Jónsdóttir Tölgyes í Dagmálum þar sem fyrirbærið þriðja vaktin var til umræðu.
„Við sjáum að þetta er stór ástæða hjónaskilnaða,“ segir Hulda sem er sjálfstætt starfandi sálfræðingur og hefur aðstoðað fjöldann allan af hjónum og sambúðaraðilum, sem átt hafa í erfiðleikum með að jafna byrðina heima fyrir, með námskeiðum, fyrirlestrum og einstaklingsráðgjöf.
„Þær upplifa að það sé ekki hlustað á þær og að þeir séu ekki til í að takast á við lífið eins og það er með þeim og öllu sem því fylgir. Þannig að margar konur hafa deilt því með okkur að þær geti ekki meir,“ útskýrir Hulda.
Samkvæmt Huldu hafa frásagnir margra kvenna einnig verið á þann veg að mörgum þeirra er ómögulegt að skilja vegna fjárhagsstöðu.
„Ef við hugsum um launamuninn og allt þetta misrétti að þá hafa margar konur ekki færi á því að fara úr sambandinu og neyðast til að sætta sig við stöðuna eins og hún er,“ segir Hulda um stöðu margra kvenna í gagnkynhneigðum samböndum.