Þrír íraskir menn sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi hafa tjaldað fyrir utan búsetuúrræði á vegum ríkislögreglustjóra í Hafnarfirði.
Mennirnir hafa fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd og hafa þeir efnt til hungurverkfalls með það fyrir augum að krefjast alþjóðlegrar verndar og afnáms þjónustusviptingar. RÚV greindi fyrst frá.
Hópur fólks kom saman á dögunum og ræddi mótmæli eða beinar aðgerðir í kjölfar þess að ný útlendingalög tóku gildi 1. júlí.
Lögin gera ráð fyrir því að þjónusta á borð við félagslegan stuðning og húsnæði verði ekki í boði fyrir þau sem fengið hafa endanlega synjun um alþjóðlega vernd og eru ekki tilbúin að vinna með stjórnvöldum að brottflutningi.
Í kjölfar þeirrar samkomu ákváðu mennirnir að fara þessa leið.
Kristín María Gunnarsdóttir, deildarstjóri stoðdeildar ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að fólk sé sannarlega velkomið í búsetuúrræði ríkislögreglustjóra sé það tilbúið að starfa með stjórnvöldum að sínum brottflutningi samkvæmt ákvæðum útlendingalaga.
„Ríkislögreglustjóri tók við þessu búsetuúrræði af Vinnumálastofnun og úrræðið er fyrir þá sem eru komnir með endanlega synjun. Þeir geta verið í úrræðinu í 30 daga en ef þeir eru í samstarfi geta þeir verið lengur.
Ef menn eru ekki tilbúnir til samstarfs, sem lítur helst að öflun ferðaskilríkja, þá er þjónustan felld niður í samræmi við 33. grein útlendingalaga eftir að henni var breytt.“