„Kona á bara að gera þetta, ef hún gerir það ekki þá er hún ekki nógu góð,“ lýsir sálfræðingurinn Hulda Jónsdóttir Tölgyes áhrifavaldi feðraveldisins sem hún segir hafa haft verulega mótandi áhrif á samfélagsleg viðhorf. Hulda er gestur í Dagmálum Morgunblaðsins í dag.
„Ég man bara í fyrsta sinn sem ég fattaði þetta, að ég væri hluti af einhverju svona samfélagslegu, það var þegar ég var að raka á mér lappirnar fyrir mörgum árum,“ minnist Hulda sem var þá spurð af vinkonu hvers vegna hún fjarlægði af sér líkamshárin og hvaðan hún hafi fengið hugmyndir um að annað væri fráhrindandi.
Atvikið er Huldu minnisstætt og varð til þess að hún hóf að skoða viðhorf sem samfélagið hefur innprentað í almenning í gegnum tíðina og aukið bæði álag og kröfur á konur.
„Þetta opnaði augu mín fyrir því að það er einhvern veginn búið að innræta þessi viðhorf í mig að ég sé bara eitthvað ógeðsleg ef ég er ekki á ákveðinn hátt. Ég á bara að vera með glansandi, hárlausa leggi því þá er ég öðrum samboðin sem kona,“ lýsir Hulda og segir inntak feðraveldisins samspil margra þátta sem kallist á við alls kyns rótgróin viðhorf um hina fullkomnu konu, eins og andúð á líkamsháravexti þeirra.
„Þetta tengist allt saman. Þetta kallast allt saman á þetta að vera alltaf þessi fullkomna kona, líta alltaf vel út, láta ekkert á sig fá og geta tekið endalaust við.“