Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi áhyggjur af öryggi almennings eftir skotárás í Úlfarsárdal í nótt þar sem skotið var á mann. Byssumannsins er leitað.
„Við höfum ekki handtekið manninn sem var þarna var valdur að verki og erum þess vegna með aukið öryggi við löggæsluna hér í borginni í dag. Það stendur yfir víðtæk leit að manninum og öflun upplýsinga til að geta haft uppi á honum,“ segir Grímur.
„Það er leitað að gerenda eða gerendum í þessu máli. Við erum með einhverja lýsingar á þeim sem beitti skotvopninu og við vinnum eftir þeim upplýsingum sem við erum með. Það er grunur um að þessi árás tengist útistöðum tveggja hópa,“ segir Grímur.
Spurður hvort það gætu orðið hefndaraðgerðir segir Grímur: „Við gerum okkar besta til að koma í veg fyrir það.“
Vitið þið hvort gerandinn og fórnarlambið hafi þekkst?
„Það er auðvitað hluti af því sem rannsóknin þarf að leiða í ljós hver hafi verið ástæðan og hvort þeir hafi þekkst,“ segir Grímur.
Hann segir að nokkrum skotið hafi verið hleypt af og eitt þeirra hafi hafnað í íbúð sem er öllu ótengd málinu. „Við vitum að hleypt var af fleiri en einu skoti en frekari upplýsingar getum við ekki veitt né hvernig skotvopn voru notuð,“ segir Grímur.