Elfa hafði betur gegn ríkinu og fær gögn afhent

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar hafði betur gegn ríkinu og …
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar hafði betur gegn ríkinu og gæti framundan orðið nokkuð mikið að gera hjá starfsfólki Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármála- og efnahagsráðherra við að svara erindum annarra forstöðumanna ríkisstofnana. Samsett mynd

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, hafði í gær betur í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn íslenska ríkinu í máli sem hún höfðaði til að fá gögn sem tengjast ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um launakjör forstöðumanna ríkisstofnana. Á hún rétt á því að ákvörðun um launakjör hennar verði útskýrð og aðgangi að skýringum á ákvörðunum um launaflokka annarra ríkisforstöðumanna. Í kjölfarið gætu fleiri ríkisforstöðumenn einnig óskað sömu gagna og hún.

Stjórnvaldsákvörðun eða -fyrirmæli

Í málinu var sérstaklega tekist á um hvort ákvarðanir fjármálaráðherra um föst laun fyrir dagvinnu og önnur laun er starfi ríkisforstöðumanna fylgja teljist vera stjórnvaldsákvarðanir eða stjórnvaldsfyrirmæli og þar með hvort fylgja beri reglum stjórnsýslulaga eða ekki.

Sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða er það ákvörðun sem á við um rétt eða skyldu ákveðinna starfsmanna, en stjórnvaldsfyrirmæli eru hins vegar almenn og beinast að ótilgreindum aðilum.

Hafði Elfa farið fram á rökstuðning fyrir því hvernig launakjör hennar voru ákvörðuð með breytingum á lögum þegar launaákvarðanir fyrir forstöðumenn ríkisstofnana voru færðar frá kjararáði. Voru við það tilefni ákvarðaðir grunnlaunaflokkar og undirflokkar fyrir hvert embætti.

Hækkun flokka en ekki hækkun launa

Í september árið 2019 var endurskoðun á grunnmatinu, en það leiddi ekki til hækkunar á launum framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar þrátt fyrir hækkun á tveimur matsþáttum. Sendi Elfa við þetta tilefni erindi til kjara- og mannauðsráðs og óskaði rökstuðnings á þessari stjórnvaldsákvörðun sem og yfirliti yfir það hvernig allir forstöðumenn ríkisstofnana væru metnir samkvæmt þeim þáttum sem grunnmat fjármála- og efnahagsráðuneytisins byggði launasetningu sína.

Ráðuneytið hafnaði þeirri beiðni hennar og vísaði til þess að grunnmatið væri heildstæð nálgun sem byggði á grundvelli samræmds matskerfis. Það væri sem sagt alveg óháð því hver gegndi starfinu og að vegna þess teldist Elfa ekki aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og ætti því ekki rétt á rökstuðningi eða aðgangi að umbeðnum gögnum.

Umboðsmaður Alþingis tók afstöðu með Elfu

Elfa kvartaði fyrst yfir þessari niðurstöðu til umboðsmanns Alþingis sem tók undir með henni og sagði ákvörðun ráðherra teljast ákvörðun um rétt og skyldu manns og væri þar með stjórnvaldsákvörðun. Því byggði synjunin á röngum lagagrundvelli og var því beint til ráðuneytisins að taka málið til meðferðar að nýju.

Elfa sendi svo erindi á ný á ráðuneytið og óskaði eftir því að það yrði tekið fyrir, en þetta var í janúar 2021. Svaraði ráðuneytið í maí sama ár og var þar ítrekuð afstaða ráðuneytisins sem sagðist telja álit setts umboðsmanns ekki í samræmi við það sem lagt hefði verið upp með við setningu laganna á sínum tíma. Í febrúar í fyrra var kynnt nýtt frumvarp sem ráðuneytið taldi eiga að taka af öll tvímæli varðandi þetta þannig að ákvarðanir um grunnmat starfa forstöðumanna ríkisstofnana væru stjórnvaldsfyrirmæli en ekki stjórnvaldsákvarðanir.

Ráðuneytið ósammála umboðsmanni

Í málinu vísar Elfa til þess að forstöðumenn gætu ekki samið um laun sín heldur væru ákvarðanirnar teknar einhliða. Þá megi þeir ekki taka þátt í verkfalli eða sambærilegum aðgerðum. Ráðuneytið sagði hins vegar að ákvæði stjórnsýslulaga, þar á meðal rökstuðningur um ákvarðanir og aðgangur að upplýsingum og gögnum ætti ekki við hvað varðaði kröfur hennar. Fór Elfa því með málið fyrir dómstóla.

Í niðurstöðukafla dómsins er meðal annars farið yfir að ráðherra ákveði forsendur grunnmatsins og starfskjör forstöðumanna og að í stjórnsýslulögum komi fram að um stjórnvaldsákvarðanir sé að ræða þegar um rétt eða skyldu mann sé að ræða. „Þegar ákvörðun um laun ríkisstarfsmanns byggist ekki á samningi heldur einhliða ákvörðun stjórnvalds verður að ætla, miðað við þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin, að slík ákvörðun teljist stjórnvaldsákvörðun,“ segir í dóminum.

Skiptir ekki máli hvaða nafni stjórnvöld kalla ákvörðunina

Dómurinn segir jafnframt að ekki skipti máli hvaða nafni stjórnvöld kalli ákvörðunina. „Það hvort stjórnvald kalli ákvörðun sína stjórnvaldsákvörðun eða stjórnvaldsfyrirmæli ræður ekki eitt og sér úrslitum um það hvort um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða eða ekki. Ákvarðanir um forsendur grunnmats geta haft einkenni almennra stjórnvaldsfyrirmæla en það er hlutverk ráðherra samkvæmt 39. gr. a laga nr. 70/1996 að taka ákvörðun um laun viðkomandi forstöðumanns og beita þessum reglum um grunnmat þegar ákvörðun er tekin sem varðar það tiltekna starf sem viðkomandi forstöðumaður gegnir.“

Með vísan í þetta segir í dómnum að ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra um kjör Elfu sé stjórnvaldsákvörðun sem leiðir til þess að fylgja skuli stjórnsýslulögum. Þar með eigi hún rétt á aðgangi að þeim gögnum sem varði ákvörðun hennar um laun og rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Er því fallist á kröfu hennar.

Gæti haft fordæmisgildi fyrir aðra forstöðumenn

Málið gæti haft talsverð áhrif út fyrir mál Elfu, en samkvæmt samantekt Ríkisendurskoðunar í fyrra var fjöldi ríkisstofnana 156. Gæti niðurstaða þessa dóms haft fordæmisgildi þannig að þeir forstöðumenn gætu einnig óskað eftir rökstuðningi og gögnum um ákvörðun ráðuneytisins um launakjör þeirra.

Elfa hafði einnig farið fram á miskabætur, en dómurinn hafnaði þeirri kröfu. Gjafsókn var veitt upp á 1,5 milljónir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert