Með þá í haldi sem mestu máli skipta

Yfirheyrslur eru að hefjast yfir þeim sjö sem voru handteknir …
Yfirheyrslur eru að hefjast yfir þeim sjö sem voru handteknir í gær. Samsett mynd

Yfirheyrslur yfir þeim sjö sem handteknir voru í gær í tengslum við skotárásina í Úlfarsárdal eru að hefjast að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum að fara að byrja yfirheyra þessa sjö aðila sem við handtókum í gær og reyna að átta okkur á hlutverki hvers og eins,“ segir Grímur við mbl.is en handtökurnar áttu sér stað seinnipartinn í gær og í gærkvöld.

Skotið var á mann fyrir utan fjölbýlishús við Silfratjörn 2 í Úlfarsárdal í fyrrinótt og þá lenti eitt skot í húsi sem er ótengt málinu. Maðurinn sem varð fyrir skotinu var fluttur á sjúkrahús en hann var útskrifaður undir kvöld í gær.

Gæti þurft að leita víðar

„Við teljum okkur vera komnir með þá aðila sem aðild eiga að málinu að sinni að minnsta kosti en svo getur rannsókn alltaf leitt í ljós að það þurfi að fara eitthvað víðar. En að sinni teljum við að við séum með þá í haldi sem mestu máli skipta,“ segir Grímur, sem vill ekki tjá sig um það á þessu stigi hvort þeir handteknu séu svokallaðir góðkunningjar lögreglu.

Þið óskuðuð eftir myndefni frá fólki og fyrirtækjum í kjölfar skotárásarinnar. Barst ykkur eitthvað og nýttast það?

„Já, við fengum upplýsingar og myndefni víða að sem nýttist okkur ásamt því að við öfluðum okkur upplýsinga. Þessi vinna að hafa upp á þessum aðilum byggist á því að afla upplýsinga, greina og nota þær,“ segir Grímur.

Grímur telur að með handtökunum sé öryggi almennings tryggt en lögreglan var með aukinn viðbúnað í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert