Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að það myndi taka innan við dag að koma rafmagni aftur á Grindavík ef svo færi að rafmagn myndi fara af bænum ef til eldgoss kæmi í grennd við Svartsengi.
HS Veitur vinna nú að því að reisa undirstöður fyrir varaaflsvélar í Grindavík. Landsnet mun svo flytja dísilvélar á staðinn en ekki er búið að ákveða hvenær vélarnar verða fluttar.
„Í undirbúningi er meðal annars að hægt verði með stuttum fyrirvara að færa nokkrar varaaflsvélar til Grindavíkur, vélar sem gætu haldið rafmagni á grunnþjónustu í sveitarfélaginu ef til þess kæmi,“ segir Steinunn.
Landsnet á og rekur tíu færanlegar varaaflsvélar sem staðsettar eru víðs vegar á landinu. „Næstu dagar fara í að virkja enn frekar okkar viðbragð, en okkar fólk er vel í stakk búið að takast á við atburði í flutningskerfinu,“ segir Steinunn.
Egill Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs hjá HS Veitum, sagði frá undirbúningnum á íbúafundi í Grindavík í gær. Þar sagði hann HS Veitur hafa reiknað út að allt umfram 3 kílóvatta notkun á hverju heimili væri of mikið.
Spurð hvort hún hefði áhyggjur af því að vararaflvélarnar gætu ekki annað meiru en útreikningar HS Veitna sýni segir Steinunn að Landsnet sjái fyrir sér að geta annað orkuþörf Grindvíkinga miðað við hvernig hún er núna.
„Við höldum að með því að færa varaaflsvélar á svæðið ættum við að geta haldið almennu álagi á bænum,“ segir Steinunn.