Úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu, sem kveðinn var upp á þriðjudag um að íslensk stjórnvöld megi ekki vísa Hussein Hussein og fjölskyldu hans af landi brott fyrr en í fyrsta lagi 21. nóvember, er ekki venjulegur úrskurður eða dómur Mannréttindadómstólsins.
Almennt hafa dómar og úrskurðir dómstólsins í Strassborg ekki réttaráhrif hér á landi.
Samkvæmt upplýsingum frá Fjalari Sigurðssyni, upplýsingafulltrúa dómsmálaráðuneytisins, er dómstóllinn að beita úrræði í starfsreglum dómstólsins, svokallaðri reglu 39, sem kveður á um að dómstóllinn geti í algjörum undantekningartilvikum beitt greininni, til dæmis til að stöðva framkvæmd á flutningi einstaklings, á meðan til skoðunar sé hjá dómstólnum hvort eitthvað efnislegt sé í málinu.
Yfirleitt sé þetta gert í tiltölulega skamman tíma til að tryggja að það verði enginn óafturkræfur skaði í málinu áður en dómstóllinn fær nægilegar upplýsingar um það og getur ákveðið í hvaða farveg það fer.
Hægt sé að beita reglu 39 í öllum málum þar sem framkvæmd einhvers geti haft óafturkræfan skaða í viðkomandi máli.
Íhlutanir samkvæmt reglu 39 eru bindandi fyrir stjórnvöld og þeim ber því að virða þær.