Vígahnöttur náðist á upptöku af Svartsengi

Smastirni sást í morgunsárið yfir Reykjanesskaga.
Smastirni sást í morgunsárið yfir Reykjanesskaga. Skjáskot/Μηνάς Κολιογιάννης

Smástirni braut sér leið í gegnum andrúmsloftið á Íslandi og náðist á upptöku yfir Reykjanesskaga í morgun, á myndavél sem var þá beint yfir Svartsengi.

Erfitt er að greina stærð loftsteinsins á myndbandinu en að sögn Sævars Helga Bragasonar stjörnuáhugamanns þá var loftsteinninn mögulega á stærð við golfkúlu eða tennisbolta.

„Þarna er um að ræða vígahnött sem kemur inn í andrúmsloftið og lifir frekar lengi – sem gerist ekki frekar oft – og hann er meðalbjartur af vígahnetti að vera.“

Sævar segir ómögulegt að segja til um hvar eða hvenær svona smástirni brjóta sér leið í gegnum andrúmsloftið og því er þetta algjörlega handahófskennt.

Það er sjaldgæft að finna leifar af smástirnum sem hafa fallið í gegnum andrúmsloftið á Íslandi, en það hefur gerst 5-6 sinnum. Af myndbandinu að dæma þá var þetta smástirni of lítið til að hægt sé að finna það og verður að teljast líklegt að það hafi fuðrað upp, að hans sögn.

Stjörnu-Sævar.
Stjörnu-Sævar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þarf fleiri myndbönd

„Það sem gerist þegar svona steinar falla í gegnum andrúmsloftið er að þeir brenna upp í svona 70-80 kílómetra hæð. En stundum komast þeir neðar og því fylgja oft drunur, en þessu fylgdi ekki neitt slíkt og því allar líkur á því að þetta hafi fuðrað upp og ekki skilið neitt eftir sig nema ryk eða í mesta lagi einhverja pínulitla steina sem hafa síðan bara fallið til jarðar, annað hvort þá á landið eða þá bara út í sjó,“ segir Stjörnu-Sævar.

Til þess að greina fjarlægðina þarf fleiri myndbönd.

„Ef fólk á fleiri myndskeið af þessu þá væri maður gjarnan til í að sjá það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert