Félagið Ísland–Palestína stóð fyrir samstöðufundi með Palestínu í Háskólabíó í dag. Mikið fjölmenni var komið saman til að heimta tafarlaust vopnahlé á átökunum sem geisa á svæðinu.
Salurinn var þéttsetinn og komu fleiri en rúmuðust þar. Fólk raðaði sér meðfram tröppunum og stóð utan við salinn til að geta fylgst með.
Steiney Skúladóttir leikkona stýrði fundinum.
Meðal ræðumanna voru Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Ísland–Palestína, Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International, og Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann, lögfræðingur og baráttukona.
Einnig tóku til máls Viðar Þorsteinsson, fræðslustjóri Eflingar og Yousef Ingi Tamimi hjúkrunarfræðingur. Sá síðastnefndi hlaut standandi lófaklapp fyrir ræðu sína.
Leikkonan Sigrún Edda Björnsdóttir las upp tvö ljóð eftir Lindu Vilhjálmsdóttur.
Þó nokkur tónlistaratriði stigu á stokk. Ellen Kristjáns kom fram ásamt Eyþóri Gunnarssyni, Þorsteini Einarssyni og Systrum. Bjartmar Guðlaugsson og Alexander Jarl tóku einnig lagið.
Þá tróðu Arnmundur Ernst Backman og félagar úr Söngfjelaginu upp.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is var mikil reiði í salnum. Lýstu fundargestir sérstaklega óánægju sinni með Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra. Hrópuðu þeir ítrekað: „Bjarna burt“.