Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir að verið sé að horfa á áframhaldandi kvikuinnflæði á fimm kílómetra dýpi, landris og jarðskjálfta á Reykjanesskaga.
Kristín ræddi við mbl.is eftir fund almannavarna þar sem farið var yfir stöðu mála vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.
„Ef við skoðum Þorbjörn og þær syllur sem mynduðust 2020 og 2022 þá er þetta fimmta syllan sem er að myndast. Hún er núna orðin tvöfalt stærri heldur en fyrri syllur sem mynduðust. Kvikuinnstreymið er líka miklu öflugra en áður, eða um fjórfalt meira,“ segir Kristín.
Ef það kemur gos hvar er þá líklegast að það verði?
„Við erum þá að horfa á þetta svæði þar sem við vitum hvar syllan er að myndast og þá kannski helst við jaðrana á syllunni. Við erum þá tala um þetta svæði frá Sýlingafelli, norðan og vestan við Þorbjörn,“ segir Kristín.
Kristín segir að það sé áfram þensla í Fagradalsfjalli þar sem gaus í sumar.
„Það gæti alveg farið eitthvað að gerast þar en þenslan er á töluverðu dýpi og við vitum að það mun taka kvikuna smá tíma að brjótast upp á yfirborðið,“ segir Kristín.