Bæði kvikuvirkni og skjálftavirkni

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ef við tökum þetta alveg frá upphafi þá er það sem er að gerast á Reykjanesskaga þáttur í langri sögu,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur um þróun mála á Reykjanesskaga og jarðhræringar þar í nágrenni við Grindavík og Bláa lónið.

Byggist jarðfræðileg atburðarás Reykjanesskagans á því að Ísland er á flekaskilum og flekarnir færast í sundur.

„Þetta er hluti af flekaskilum Íslands og þessi hluti þeirra hefur þessa merkilegu náttúru að kvikuvirkni kemur við sögu í tiltölulega stuttan tíma í einu og svo kemur hlé,“ heldur Páll áfram.

Flekaskilin sérstök

Stuttur tími sé þó vissulega miðaður við jarðsöguleg tímabil í þessu tilfelli og á skaganum virðist koma virk tímabil sem standi í tvö til þrjú hundruð ár en þess á milli sé sjö til átta hundruð ára hlé á kvikunni og virknin á flekaskilum þá einkum í formi jarðskjálfta.

„Þessi flekaskil eru svolítið sérstök að því leyti að þetta er svokallað skáreksbelti, rekið er skáhallt á beltið sem þýðir að á þessu belti er bæði kvikuvirkni og skjálftavirkni, sem er óvenjulegt. Venjulega eru beltin annaðhvort skjálftabelti eða kvikubelti, þessi eldgosabelti skiptast á, þverbeltin eru skjálftabelti en eldvirknin er bundin við fráreksbeltin þar sem flekarnir eru að færast í sundur,“ útskýrir Páll.

Aðeins tvö belti á stórum hluta jarðarinnar séu af þessu tagi, Reykjanesskaginn og skáreksbeltið við Grímsey þar sem bæði sé eldvirkni og skjálftavirkni.

Nán­ar er fjallað um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka