Uppfærð líkön áætla að meðal innflæðið í lárétta syllu á um 5 km dýpi á Reykjanesskaga haldi áfram en frá upphafi þenslumerkisins hefur meðal innflæði verið um fimm rúmmetrar á sekúndu (óvissa er ±2 m3/s).
Bylgjuvíxlmynd fyrir tímabilið 28. október til 6. nóvember staðfestir einnig áframhaldandi landris við fjallið Þorbjörn, en þetta sýna einnig gervitungla- og GPS gögn.
Bylgjuvíxlmyndin sýnir nær lóðrétta hreyfingu en einnig hliðrun vegna sprunguhreyfinga sem eru tengdar jarðskjálftavirkninni.
Bylgjuvíxl koma fram þar sem tvær eða fleiri bylgjur mætast.
Þetta kemur fram í uppfærðri færslu á vef Veðurstofunnar.
Síðasta sólarhring hafa um 1.200 jarðskjálftar mælst og urðu flestir þeirra á svæðinu milli Þorbjörns og Sýlingafells, svipað og daginn áður
Skjálftavirknin heldur áfram á sama dýpi og áður, og má áfram búast við hviðukenndri skjálftavirkni á meðan að kvikusöfnun er í gangi.