„Geti beinlínis grafið undan fjölmiðlafrelsi“

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. Samsett mynd

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, gerir athugasemdir við orð Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, á fundir borgarstjórnar í gær. Segir hún að orð Dóru geti beinlínis grafið undan fjölmiðlafrelsi, en Dóra gagnrýndi þar meðal annars umfjöllun mbl.is og Morgunblaðsins um fjárhagsmál borgarinnar og setti það í samhengi við útgreiðslu ríkisstyrkja til einkarekinna miðla.

Í færslu á Facebook segir Sigríður að hún geri ekki athugasemdir við að reglur um úthlutun fjölmiðlastyrkja séu gagnrýndar og að hverjum sem er sé frjálst að finna að efnistökum eða nálgun einstakra fjölmiðla.

Mér finnst hins vegar athugunarvert að tengja þetta tvennt saman og tel að slíkt geti beinlínis grafið undan fjölmiðlafrelsi. Það er algjör forsenda opinberra styrkja til fjölmiðla að þeir séu án allra pólitískra afskipta og að reglur um þá séu gagnsæjar og sanngjarnar svo þær uppfylli markmið þeirra, sem er að efla frjálsa fjölmiðla í þágu lýðræðis,“ segir Sigríður í færslunni.

Á þessi gagnrýni Sigríðar rætur sínar að rekja til orða Dóru í gær á borgarstjórnarfundi þar sem fjárhagsáætlun borgarinnar á næsta ári og áætlun til næstu fimm ára var til umræðu.

Beindi gagnrýni að Morgunblaðinu og mbl.is

Í ræðu sinni fór Dóra meðal annars yfir umfjöllun sem hefur verið um fjármál borgarinnar og beindi orðum sínum að Morgunblaðinu.

„Enda er áróðurinn gegn borginni, sér í lagi þegar kemur að fjárhagslegri getu hennar og getu meirihlutans til að fara með fjármálastjórn risavaxinn. Og hann heldur alltaf áfram. Eftir að Fréttablaðið datt upp fyrir hefur Morgunblaðið fengið enn meira svigrúm til að stjórna umræðunni þegar kemur að þeirri stanslausu herferð gegn meirihlutanum í borginni með því markmiði að Sjálfstæðisflokkurinn nái yfirhöndinni einhvern tímann aftur. Það er í raun risastórt lýðræðislegt vandamál hvernig ástandið er á fjölmiðlamarkaði í dag því almenningur fær kolskakka mynd af raunveruleikanum,“ sagði Dóra.

Fór hún því næst nánar yfir fjárhagsstöðuna og gagnrýndi framsetningu minnihlutans þegar kæmi að gagnrýni á fjármál borgarinnar. Sagði hún um áróður að ræða. Aftur beindi hún svo orðum sínum að Morgunblaðinu og mbl.is.

„Morgunblaðið dirfðist leng veli að vera með sérstakan undirglugga á forsíðu mbl.is [innskot blm: knippi um tengd fréttamálefni] um fjárhagslega erfiðleika Reykjavíkur. Það er varla hægt að hugsa sér grímulausa pólitíska stöðutöku. Finnst okkur þetta bara í lagi?“

Vill setja styrkveitingum skorður út frá umfjöllun

Sagði Dóra að hamrað væri á því að gefa upp skekkta og kolranga mynd af stöðu borgarinnar og tengdi svo umfjöllun við fyrrnefnda opinbera styrki til einkarekinna miðla.

„Samt endurspeglar almenningsumræðan þetta mjög sjaldan vegna þess að umfjöllunin er oft mjög ósanngjörn og ekki í takti við staðreyndir, sér í lagi af hendi þeirra fjölmiðla sem fylgja augljósri pólitískri stefnu sem snýr að því að sverta borgina til að flytja ábyrgð á stjórn borgarinnar yfir í hendur Sjálfstæðisflokksins. Það er mjög mjög miður því það er raunar lýðræðislegt vandamál.

Ég myndi vilja sjá fjölmiðla sem fá yfir 100 milljónir ríkisjóðskassanum og hæstan styrk við sinn rekstur af öllum einkareknum fjölmiðlum á Íslandi sýna af sér faglegri og lýðræðislegri vinnubrögð. Ég myndi raunar halda að eðlilegt væri að það væri einhverskonar forsenda að sýna af sér hlutleysi og styðja við lýðræðishlutverk fjölmiðla til að fá fé úr ríkissjóði inn í sinn rekstur ef þú spyrð mig.“

Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vakti athygli á ummælunum á samfélagsmiðlum í gær og má sjá hluta af ræðu Dóru í myndbandinu sem fylgir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert