Tilfærsla hefur orðið á háhitasvæðinu í Hveradölum við Hellisheiði og aukin jarðhitavirkni mælist undir hringveginum í Hveradalabrekku.
Vegagerðin kveðst fylgjast vel með stöðunni og sömuleiðis Orkuveita Reykjavíkur, en dótturfélagið Orka náttúrunnar rekur Hellisheiðarvirkjun og nýtir jarðvarma á þessu svæði.
Gylfi Gylfason er áhugamaður um jarðvísindi og hefur tekið tekið myndir með hitamyndavéladróna á svæðinu. Óhætt er að segja að myndefnið sé áhugavert.
Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir í samtali við mbl.is að allar tilfærslur á háhitasvæðum séu merkilegar.
Stundum geti slíkar tilfærslur orðið í kjölfar jarðskjálftahrina. Nefnir hann sem dæmi þegar veruleg jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga varð til þess að háhitasvæði færðist til svo um munaði. Segir hann það ekki vera tilfellið þarna enda hafi ekki orðið stórir jarðskjálftar í Hengilskerfinu.
Ari fjallaði um tilfærslu virkninnar á háhitasvæðinu við Hveradali á samfélagsmiðlum sínum í maí. Sagði hann þá að stutt væri frá hverasvæðinu við Skíðaskálann upp að löngu gossprungunni sem var virk fyrir um 1.900 til 2.000 árum.
„Þjóðvegurinn þverar hana á að giska 1-2 km austan við svæðið. Tilfærsla jarðhitans núna á samt ekkert skylt við einhvers konar endurlífgun á henni. Hitt er svo líklegt: Einhvern tíma verður uppi jarðeldur i Hengilskerfinu. Á síðasta áratugi 20. aldar gekk yfir löng hrina jarðskjálfta með kvikuinnskoti undir eða utan í Hengli sem er ung og virk megineldstöð með kvikuhólfi,“ segir í færslu Ara.
Ari segir það í dag greinilegt að háhitasvæðið sé að vaxa. Segir hann eina orsök svona breytinga geta verið ákafa jarðskjálftavirkni en því sé ekki að heilsa í þessu tilviki.
Þá segir hann að einhvers konar kvikuinnskot myndi framkalla miklu meiri jarðskjálfta en hafa verið á svæðinu.
„Þá eru þetta breytingar á sprungumynstri í kjölfar jarðskjálftavirkni í mörg ár á þessu svæði, bæði vegna niðurdælingar og spennulosunar. Þá fara örfínar sprungur að myndast sem ekki voru áður og smám saman þá bolar þessi jarðhiti, sem er yfirþrýst gufa og vatn, sér upp á nýjum stöðum. Þannig að þetta er náttúruleg tilfærsla í beinum tengslum við jarðvirknina sem er þarna á stóru svæði.“
Það er önnur orsökin sem kemur til greina að sögn Ara. Hin orsökin getur þá tengst því þegar verið er að vinna á háhitasvæðum sem þessum og gufa og vatn dregin upp úr jörðu. Þá breytist ástandið efst í jarðhitakerfinu og það verður til gufupúði sem getur farið að skila sér.
„Við þetta nýja vinnslusvæði sem var tekið í notkun fór að birtast nýtt jarðhitasvæði uppi á brún. Þar voru teknar nokkrar holur og nýtt svæði birtist 200 metrum austar og ofar vinnslusvæðisins.“
Segir hann alþekkt, til dæmis á Kröflusvæðinu, Þeistareykjum og nærri Reykjanesvirkjun, að gufa sjáist koma upp á nýjum stöðum og þeir hitni vegna breytinga á efri hluta vinnslusvæðis.
„Það gæti vel verið skýringin þarna,“ segir Ari.
Sigurður Garðar Kristinsson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, segir í samtali við mbl.is erfitt að svara því hvað sé að gerast á háhitasvæðinu við Hveradali. Sérfræðingar fyrirtækisins hafa skoðað og fylgst með svæðinu fyrir Vegagerðina.
„Það er alltaf einhver náttúruleg breyting á jarðhita sem er erfitt að skýra. Þetta virðist alla vega hafa byrjað nokkuð hratt. Við höfum ekki upplýsingar um það hvort einhverjar breytingar hafi átt sér stað hjá Orku náttúrunnar í niðurdælingu eða upptekt í einhverjum holum í nágrenninu,“ segir Sigurður.
„Mögulega er einhver breyting á náttúrulegri virkni og slík breyting gæti orðið vegna þrýstibreytinga í jarðhitageyminum sem verið er að vinna úr. Maður sér það að gufuvirknin er að teygja sig töluvert suður fyrir veginn, er að aukast meira þar, og er komin töluvert langt inn í dalinn.“
Sigurður segir að háhitasvæðið sé ekki að færast til í þessu tilviki heldur sé það að stækka.
„Ég myndi segja að þetta sé nokkuð hröð virkni. Það er innan við ár síðan þetta kom fyrst fram og þetta er að fara að teygjast töluvert hratt þarna til suðurs. Þetta virðist liggja inni í sigdalnum frá Reykjafelli að Stóra-Meitli.“
Birkir Hrafn Jóakimsson, byggingarverkfræðingur hjá Vegagerðinni, hefur fylgst með þróuninni í og við hringveginn. Segir hann áhyggjur Vegagerðarinnar liggja fyrst og fremst í því að slitlagið sjálft fari að hitna og þar af leiðandi að mýkjast.
„Það er svo sem ekki alveg komið að því ennþá. Við erum með mælipunkta í malbikinu og svo aðra sitt hvorum megin við veginn, svona 200 metra frá. Við sjáum að það er töluverður munur í hitastigi, þetta er mun heitara en hefðbundinn vegur.“
Segir Birkir malbikið þola þetta vel og að þróunin sé ekki mjög hröð. Þó eigi að reyna að reka stálrör inn í veginn mjög neðarlega og reyna þannig að freista þess að veita hitanum út úr veginum neðst.
Birkir á ekki von á því að þetta komi til með að hafa áhrif á færð í vetur þó slabb muni myndast fyrr á þessu svæði. Segir hann snjó munu festast seinna á móti. Hann segir Vegagerðina fylgjast mjög vel með þróun ástandsins.
Hitinn sé ekki eins hár í veginum þar sem fyllingin undir veginn á þessu svæði sé mjög há.
„Við hefðum örugglega lent í meiri vandræðum ef vegbyggingin væri lægri. Við erum með svo stórt flatarmál í öxlunum og fláanum sem nær að kæla þetta,“ segir Birkir.
„Þetta hefði eiginlega varla komið á öruggari stað. Það er svo mikið efni frá yfirborðinu þar sem sprungan er og upp á yfirborð vegarins.“