Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að framtíð Grindavíkurbæjar sé í höndum íbúanna í samráði við stjórnvöld, spurður hvort varhugavert sé að halda áfram byggð í bænum að lokinni yfirstandandi atburðarás.
Hann segir Grindvíkinga þurfa tíma til þess að taka upplýstar ákvarðanir og telur almannavarnir hafa staðið vel að því að hleypa íbúum í bæinn í hollum í dag inn á heimili sín til þess að sækja nauðsynjar.
„Það er ekki fyrir okkur að segja til um það. Það er kannski meira fyrir íbúa Grindavíkur í stjórnvöld eða yfirvöld að ákveða,“ segir Þorvaldur, spurður um framtíð byggðar í Grindavík í kjölfar jarðhræringanna.
„Þetta er náttúrulega erfið staða sem er komin upp vegna þess að við erum með allar þessar hreyfingar inni í bæ sem valdið hafa verulegum skemmdum og það þarf auðvitað að laga það allt saman,“ segir hann.
„Ég held við verðum bara að leyfa Grindvíkingum að fá að skoða þetta í ró og næði og sjá til þess að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir. Síðan ákveða þeir sjálfir hvað þeir vilja gera og við styðjum við bakið á þeim í gegnum allt þetta ferli og gerum allt sem við getum til þess að sjá til þess að Grindvíkingar komi sem best út úr þessu öllu saman.“
Loks telur Þorvaldur það vera rétt mat hjá almannavörnum að fara hleypa fólki inn í bæinn í hollum til þess að ná í eigur sínar. Sú aðferð sé æskileg vegna þess að hún geri rýmingu bæjarins fýsilegri.
„Þetta er mjög sniðug uppsetning,“ segir Þorvaldur. „Ég veit að þetta tekur lengri tíma en ég held að þetta sé það rétta í stöðunni og að það sé mjög vel utan um þetta haldið.“