Biðst afsökunar: „Ömurleg hegðun af minni hálfu“

Ragnar segir í samtali við mbl.is að um algjört óðagot …
Ragnar segir í samtali við mbl.is að um algjört óðagot hafi verið að ræða. Samsett mynd/Colourbox/mbl.is/Eggert

Ragnar Visage, ljósmyndari fréttastofu Ríkisútvarpsins, segist harma það að hafa reynt að komast inn í mannlaust hús í Grindavík fyrr í dag.

Hann segir að á þessum tímapunkti hafi honum fundist það hafa verið rétt ákvörðun að reyna að komast inn í húsið. Hann sjái hins vegar núna að það hafi ekki verið rétt ákvörðun. 

Fréttastjóri Rúv, Heiðar Örn Sigurfinnsson, hefur beðist afsökunar á vinnubrögðum Ragnars og harmar atvikið í yfirlýsingu til fjölmiðla.

Líður bara ömurlega yfir þessu

Ragnar segir í samtali við mbl.is að um algjört óðagot hafi verið að ræða. Hann hafi verið einn eftir af tökumönnum Rúv á svæðinu, og að engir íbúar hafi verið nálægt. 

„Ég var að mynda þarna miða sem á stóð að húsið væri tómt og ákvað að athuga hvort ég kæmist inn, mér fannst það á þessum tímapunkti góð hugmynd en þetta var auðvitað hörmuleg ákvörðun hjá mér. Mér líður bara ömurlega yfir þessu,“ segir Ragnar. 

Hann hefur beðið björgunarsveitarmenn afsökunar á atvikinu og ætlaði að biðja íbúa hússins afsökunar.

„Þetta var bara ömurleg hegðun af minni hálfu,“ segir Ragnar og bætir við að hann muni læra af þessu. 

Ragnar segist ætla að biðja íbúa hússins innilega afsökunar á atvikinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert