Það hefur mætt talsvert á Þorvaldi Þórðarsyni, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands, undanfarið, en hann hefur ekki aðeins verið að svara íslenskum fjölmiðlum varðandi stöðu mála á Reykjanesskaganum heldur einnig alþjóðapressunni. Ljóst er að síminn stoppar ekki hjá Þorvaldi, ekki einu sinni í beinni útsendingu.
Þorvaldur var í viðtali á CNN í dag þar sem hann sagði fréttamanni frá gangi mála. Sem fyrr segir eru margir að reyna að ná í Þorvald sem gleymdi líklega að setja símann sinn á hljóðlausa stillingu í beinni útsendingu.
Allt fór þó vel og Þorvaldur gat svarað öllum helstu spurningum fréttamanns CNN, sem velti m.a. vöngum hvort mögulegt gos myndi verða jafn afdrifaríkt og eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Í apríl það ár varð sprengigos í toppöskju eldfjallsins sem leiddi til þess að um það bil 100.000 áætlunarferðum í flugi var aflýst.
Þorvaldur tók fram að ef það kæmi gos nú þá myndi það að öllum líkindum ekki hafa sambærileg áhrif á flugsamgöngur.