Kvika líklega komið beint upp úr dýpra hólfi

Þorvaldur segir að eitthvað virðist koma í veg fyrir að …
Þorvaldur segir að eitthvað virðist koma í veg fyrir að kvikan komi upp. Hann telur að mögulega sé þar til fyrirstöðu eitthvað haft. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir möguleika á að kvika hafi einnig komið upp úr dýpra geymsluhólfi fyrir neðan sylluna við þær hreyfingar sem orðið hafa á Reykjanesskaga á síðustu dögum og vikum. 

„Þá meira beint upp,“ segir hann og bætir því við að syllan hafi þá farið af stað og hálftæmst í tengslum við það. Segir Þorvaldur í samtali við mbl.is að honum þyki það reyndar mjög líklegt.

Setlögin geti virkað sem gildra

„Það er mjög líklegt, finnst mér, að það hafi komið eitthvert skot þarna að neðan sem hjálpar við þessa atburðarás. Þá er það meira svona svæðisbundinn gangur,“ segir Þorvaldur.

Hann segir áhugavert að kvikan hafi ekki náð alla leið til yfirborðs eftir að hún fór af stað á föstudag.

„Það er eins og eitthvað hafi aftrað henni að komast upp. Mér finnst það benda til þess að eitthvert haft sé að valda kvikunni erfiðleikum við að ná alla leið til yfirborðs. Það er ágætt að vona að haftið sé nægilega sterkt til að halda þessu þarna niðri,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamaður spyr Þorvald frekar út í haftið sem hann nefnir og hvað gæti verið þar á ferðinni. Segir hann að berggrunnurinn undir yfirborðinu á Reykjanesskaga sé mjög lagskiptur.

„Það eru fjölbreyttar bergtegundir þarna. Við erum með hraunlög, móberg og setlög. Þessi fjölbreytileiki gerir það að verkum að þegar eitthvað er að fara upp á við þá fer það úr einu jarðlagi yfir í annað og hvert jarðlag hefur mismunandi eiginleika. Það getur haft áhrif á ris kvikunnar. Eðlisþyngd til dæmis setlaganna er mun minni en eðlisþyngd hraunlaganna. Setlögin geta stundum virkað svolítið sem gildra.“

Þorvaldur segir þá að fyrri gos á Reykjanesskaga hafi einfaldlega haft nægilegan kraft til að komast í gegn.

Endurtekið ferli?

Hvað gerist ef nýja sprungan fyllist af kviku án þess að kvika nái að brjótast upp á yfirborðið?

„Ef kvika heldur áfram að flæða upp úr dýpra geymsluhólfinu og inn í þessa grunnstæðu syllu þá gæti ferlið sem við vorum í áður verið endurtekið.

Ef við höfum fengið tiltölulega stórt kvikuinnskot úr neðra hólfinu, sem myndar þá ganginn, og kvikan í syllunni bætist þar við líka þá getum við fengið jafnvel endurtekningu á því seinna eða eftir tvær til þrjár vikur,“ segir Þorvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka