„Við setjum þetta ekki upp að ástæðulausu“

Ákvörðun vegagerðarinnar þess efnis að strika yfir heiti Grindavíkurbæjar hefur …
Ákvörðun vegagerðarinnar þess efnis að strika yfir heiti Grindavíkurbæjar hefur vakið hörð viðbrögð hjá mörgum. Samsett mynd

G. Pétur Matthíasson, upplýsingastjóri Vegagerðarinnar, kveðst skilja vel að Grindvíkingar séu viðkvæmir fyrir því að sjá yfirstrikanir á heiti Grindavíkurbæjar á skiltum Vegagerðarinnar. Þetta sé hins vegar gert til að tryggja raunverulega vegvísun.

Pétur segir í samtali við mbl.is að Vegagerðin sé með til skoðunar að útbúa bráðabirgðaskilti ef til þess kemur að Grindavíkurvegur verði lokaður til lengri tíma.

Eins og mbl.is greindi frá þá ákvað Grindvíkingurinn Smári Þórólfsson að fjarlægja yfirstrikun á heiti bæjarins á einu skilti við Grindavíkurafleggjara í dag. Hyggst hann halda verkefninu áfram á morgun.

Betra að strika yfir heitið heldur en að breiða yfir skiltið

„Það er vandkvæðum bundið að breiða alveg yfir þetta og þá sést heldur ekki að Grindavík sé þarna, þannig að ég held að það sé ekki betra fyrir þann sem finnst sárt að sjá þetta,“ segir Pétur.

Hann segir að yfirstikunin hafi skilað árangri fyrir þá sem nýta sér vegakerfið og þá sérstaklega fyrir ferðamenn, sem geta með yfirstikuninni séð að engin ástæða er að keyra til Grindavíkur.

„Þetta sýnir það að þarna er Grindavík, en að það er ekki opinn vegur þangað,“ segir Pétur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka