Stöðug skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga síðustu daga. Fram kom á vef Veðurstofunnar í gærmorgun að skjálftavirknin hefur haldist stöðug frá 11. nóvember. Stærsti skjálftinn sem mældist í gærmorgun var 2,9 að stærð en fram að því höfðu mælst um 800 smáskjálftar frá miðnætti.
Eins og sjá má á meðfylgjandi grafi var skjálftavirkni í aðdraganda þriggja síðustu eldgosa á Reykjanesskaga mismunandi í hvert sinn. Í gosinu í Meradölum í ágúst 2022 hófst skjálftahrinan þremur dögum fyrir gos en þegar gosið hófst við Litla-Hrút í sumar hafði hrinan staðið yfir í sex daga. Neyðarstigi var lýst yfir og Grindavík var rýmd síðasta föstudag í kjölfar upphafs öflugrar jarðskjálftahrinu.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.