Strætó bs. hefur verið gert að greiða hópbifreiðarfélaginu Teiti Jónassyni ehf. tæpar 194 miljónir króna í skaðabætur vegna útboðs árið 2009, þar sem innkaupaskrifstofa hafnaði tilboði fyrirtækisins í akstur fyrir Strætó.
Forsaga málsins er sú að árið 2009 birti Strætó útboðslýsingu vegna akstur strætisvagna en þar kom fram að það næði til aksturs almenningsvagna á þrettán leiðum á höfuðborgarsvæðinu. Var sjö fyrirtækjum boðið að taka þátt í útboðinu í samræmi við undangengið forval og var hópbifreiðarfélagið Teitur Jónasson þeirra á meðal.
Strætó ákvað að taka tilboði Hagavagna hf. annars vegar og tilboði Kynnisferða ehf. hins vegar en síðar kom í ljós að vagnar Hagavagna uppfylltu ekki körfur forvals- og útboðsgagna og afhenti Strætó því fyrirtækinu vagna svo það gæti staðið við skuldbindingar sínar.
Teitur Jónasson höfðaði þá mál gegn Strætó og var komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði brotið gegn meginreglu við umrætt útboð. Var því viðurkenndur réttur Teits Jónassonar til skaðabóta úr hendi Strætó vegna missis hagnaðar sem hann hefði notið ef tilboði hans hefði ekki verið hafnað.
Þá var Strætó gert að greiða rúmar 205 milljónir króna. Strætó krafðist sýknu fyrir héraðsdómi en þeirri kröfu var hafnað. Því var málinu skotið til Landsréttar sem staðfesti í dag niðurstöðu héraðsdóms um greiðslu skaðabóta til að því undanskildu að upphafstíma dráttarvaxtakröfu var breytt auk þess sem fjárhæð kröfu Teits Jónassonar var lækkuð.
Í dómsorðum Landsréttar segir að Strætó greiði því Teiti Jónassyni 193.918.137 krónur í skaðabætur með vöxtum og 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.
Allrahanda GL ehf., sem einnig tók þátt í útboðinu, krafði Strætó um 530 milljóna króna í skaðabætur, en héraðsdómur mat tjónið á 100 milljónir og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu, árið 2017.