Tugir höfunda sniðganga Iceland Noir

Hillary Clinton flytur ræðu í september síðastliðnum.
Hillary Clinton flytur ræðu í september síðastliðnum. AFP/Alex Wong

Um 60 rithöfundar hafa ákveðið að sniðganga bókmenntahátíðina Iceland Noir og hvetja þeir aðra til að gera slíkt hið sama. Ástæðan fyrir því er þátttaka Hillary Rodham Clinton í hátíðinni, þar sem hún verður heiðursgestur.

Á meðal höfundanna eru Hallgrímur Helgason, Guðrún Eva Mínervudóttir, Bragi Ólafsson, Kristín Ómarsdóttir, Kristín Eiríksdóttir og Pedro Gunnlaugur Garcia. 

„Hillary Clinton beitir sér opinberlega gegn því að vopnahlé verði gert á yfirstandandi þjóðarmorði Ísraelshers í Palestínu. Einnig hefur hún um árabil notað sinn breiða vettvang til þess að dreifa áróðri Ísraelsstjórnar og röngum upplýsingum með tilheyrandi skaða fyrir palestínsku þjóðina,” segir í opnu bréfi sem höfundarnir skrifa undir.

„Með því að bjóða henni tók Iceland Noir-hátíðin afstöðu og með því að halda boðinu til streitu undirstrikaði hátíðin pólitíska afstöðu sína, með stríðsglæpum og þjóðarmorði,” segir þar einnig.

„Þegar börn berast á banaspjótum, og eitt þeirra er myrt á tíu mínútna fresti, gefst ekki tími fyrir skoðanaskipti og vangaveltur, heldur er það afstaðan ein sem gildir og við hvetjum ykkur þess vegna til þess að:

- Taka skýra afstöðu gegn stríðsglæpum og þjóðarmorði.

- Taka ekki þátt í að hvítþvo ísraelsk stjórnvöld og stuðningsfólk þeirra.

- Að grafa ekki undan mannréttindabaráttu palestínsku þjóðarinnar.

- Að styðja frjálsa Palestínu!”

Fram kemur að sniðganga sé friðsamleg aðferð sem miði að því að tjá siðferðislega og pólitíska vanþóknun á aðgerðum einstaklinga eða stofnana sem skaða aðra. Ekki sé um að ræða persónulega árás á skipuleggjendur eða bakhjarla hátíðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert