Um 1.600 skjálftar hafa mælst frá miðnætti í dag og ekkert lát er á smáskjálftavirkni. Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að nú standi yfir biðleikur.
„Við sjáum litlar breytingar frá degi til dags og það er ekkert merki um að virknin sé að minnka,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
Stærsti skjálfti dagsins mældist 2,8 að stærð og varð hann kl. 15.02.
Einar segir skjálftana vera á sama meðaldýpi og áður, á um 5 kílómetra dýpt en að af og til mælist skjálftar grynnra en það.