Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúrvöktunar á Veðurstofu Íslands, sagði á fundi almannavarna rétt í þessu að staðan væri svipuð og undanfarna daga og dregið hafi úr jarðskjálftavirkni og hraða aflögunarinnar.
Segir Kristín að skjálftarnir í tengslum við kvikuganginn mælist bæði færri og smærri með hverjum degi sem líður.
„Kvikugangurinn heldur samt áfram að víkka og dýpka en víkkar og dýpkar minna síðastliðinn sólarhring en sólarhringana þar á undan.“
Þessi minnkandi virkni bendi til að kvikan sé komin mjög ofarlega í jarðskorpuna, þar sem hún sé þegar orðin mjög brotin, og ekki þurfi mikil átök svo hún komist til yfirborðs.
Á meðan líkanreikningar bendi enn til að kvika flæði inn kvikuganginn verði að teljast líklegt að það gjósi og að þessar auknu líkur muni vara að minnsta kosti næstu daga.
Þá bendi gögnin til að mesta víkkun á ganginum sé um miðbik hans, á svæðinu vestan við Hagafell. Því telji vísindafólk að þetta svæði sé líklegasti upptökustaður fyrir eldgos.
„Afleiðingar slíks goss fara eftir stærð þess og um það er erfitt að spá,“ sagði Kristín.
Segir hún að nákvæmur upptökustaður sé forsenda þess að hægt sé að spá fyrir um hraunflæði.
„En komi upp hraun á umræddu svæði getur það flætt í átt að Svartsengi, Grindavík en einnig í norður og austurátt, allt eftir því hvar nákvæmlega hraun kemur upp.“
Að sögn Kristínar erum við enn í miðri atburðarás, af allmörgum á Reykjanesskaganum síðastliðin þrjú ár, sem hófst rétt upp úr miðjum október með landrisi við Þorbjörn. Tók hún þá nýja stefnu þann 10. nóvember þegar skjálftar fóru að mælast við Sundhnúkagíga.
„Svo voru fyrirboðar þessara miklu umbrota sem fylgdu myndun kvikugangsins sem er einhver hraðasti atburður sem við höfum séð í 30 ára mælingasögu,“ segir hún og bætir við að umbrotunum hafi fylgt miklar áskoranir fyrir íbúa, vísindafólk og viðbragðsaðila. Sá tími sem það taki fyrir jörðina að jafna sig verði mögulega í hlutfalli við umfang umbrotanna.
Þá takist náttúrunni enn að koma okkur á óvart þrátt fyrir aukna tækni og þekkingu.