Neyðargarður fyrir Grindavík í skoðun

Björgunarsveitarfólk á vakt í nágrenni Grindavíkur.
Björgunarsveitarfólk á vakt í nágrenni Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verið er að skoða hvort byggja skuli varnargarða fyrir Grindavík vegna mögulegs hraunflæðis í átt að bænum komi til eldgoss.

Að sögn Víðis Reynissonar, sviðsstjóra almannavarna, gengur vinna við fyrstu tvo áfangana vegna varnargarða í kringum Svartsengi hraðar en búist var við vegna þess að meira efni var hægt að nota á staðnum.

Stór hluti er kominn í þá þriggja metra hæð sem almannavarnir ætluðu að byrja á. Þriðji áfangi á svæðinu byrjar síðan mjög fljótlega.

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, á upplýsingafundinum í dag.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, á upplýsingafundinum í dag. mbl.is/Óttar

„Þetta er neyðarplanið okkar“

„Við erum líka á sama tíma að skoða hvort það eigi að fara í varnargarða fyrir Grindavík. Við þurfum að klára fyrstu þrjá áfangana í hinum garðinum, sem er talið brýnast, áður en við færum í að flytja brúnað í að taka þetta. En ef það myndi byrja að gjósa og hraunstraumur færi að renna í átt að Grindavík þá erum við með gríðarlegt magn af tækjum sem gætu nýst við að setja upp svona neyðargarð sem gæti leitt hraunið vestanmegin við Grindavík. Það er neyðarplanið okkar," segir Víðir, sem ræddi við blaðamann að loknum upplýsingafundi almannavarna í Skógarhlíð.

Frá Grindavík í gær.
Frá Grindavík í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður segir hann að ekki þyrfti sérstakt leyfi stjórnvalda fyrir slíku, þar sem um neyðaraðgerðir væri að ræða. Heimild sé fyrir slíku í lögunum en almannavarnir þyrftu að skila minnisblaði til dómsmálaráðherra sem myndi þá hafa samráð við lykilaðila.

Víðir bætir við að almannavarnir vilji vanda til verka og verið er að vinna hættumat á því hversu mikið varnargarður sem þessi gæti dregið úr hættunni.

Landslagsarkitekt til aðstoðar

Varðandi varnargarðana í kringum Svartsengi segir hann að landslagsarkitekt hafi verið fenginn þar til aðstoðar.

„Þegar kemur að því að fara í ytri frágang á görðunum verður horft til þess að þeir eiga eftir að standa þarna lengi og reynt að gera þetta með þeim hætti að hugsanlega verður hægt að nýta þetta sem útivistarsvæði eða eitthvað slíkt," segir hann. Á sama tíma þurfi garðarnir að falla eins vel að umhverfinu og mögulegt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert