Bjarsýnustu vonir að myrkvast

Vegurinn um Veiðileysuháls er torfær á vetrum vegna snjóa.
Vegurinn um Veiðileysuháls er torfær á vetrum vegna snjóa. Ljósmynd/Vegagerðin

„Í nafni réttlætis og jafnréttis skora ég hér með á þingheim að standa sig gagnvart einum af sínum minnstu og fjarlæga bróður og koma í veg fyrir að Veiðileysuháls verði eina ferðina enn látinn bíða seinni tíma. Fyrir mörg okkar er seinni tíminn þegar runninn upp og okkar bjartsýnustu vonir farnar að myrkvast.“

Þetta skrifar Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps í umsögn til Alþingis um samgönguáætlun fyrir næstu ár og segist tala fyrir hönd allra Árneshreppsbúa, núverandi og brottfluttra.

Í umsögninni skrifar Eva, að frá árinu 2014, þegar hún var kjörin oddviti Árneshrepps, hafi hreppsnefndin reynt að ýta undir og hvetja til þess að uppbygging vegar yfir Veiðileysuháls verði loksins tekin á dagskrá:

Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps.
Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps.


„Hvað eftir annað höfum við upplifað vonir og væntingar verða að engu. Hvað eftir annað hefur framkvæmdum verið skotið á frest (...). Nú síðast hafði stefnan verið að byrja 2024 og taka skyldi veginn í þrem áföngum. Nú þegar öllum undirbúningi er að mestu lokið og takmarkið er nær en nokkru sinni áður, virðist enn einu sinni eiga að blása þennan vegarspotta út af borðinu!! Þar sem „spottinn“ er ekki nema 12 km er það með öllu óskiljanlegt hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi ekki efni á þessu og taki þar með jafnframt önnur verkefni fram fyrir í röðina, eina ferðina enn. Enn einu sinni virðist eiga að svíkja íbúa Árneshrepps um langþráðar úrbætur sem hafa verið á döfinni svo lengi sem elstu menn muna.

Vetrareinangrun hafa alveg fram undir þetta verið hlutskipti íbúa Árneshrepps og það tengist auðvitað skorti á framkvæmdur við títt nefndan Veiðileysuháls. Vegna legu vegarins um hálsinn hefur oft verið mjög erfitt að moka hann og erfið lega hans einnig nefnd sem ástæða fyrir því að ekki væri hægt að verða við því að opna veginn reglulega. Undarfarna tvo vetur hefur þó verið rekið hér „tilraunaverkefni“ um snjómokstur 2svar í viku allan veturinn og er þetta í fyrsta skipti í sögu Árneshrepps sem slíkt er gert. Samkvæmt reynslunni eftir þessa tvo vetur er það fyrst og síðast veðurfarið og lega vegarins sem ræður hversu oft er hægt að moka til okkar. Og það breytist ekkert fyrr en nýr vegur hefur verið lagður yfir Veiðileysuháls.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert