Móeiður átti hugmyndina að ísferð með forsetanum

Arna, Dagur, Skalla-Gulla, Guðni og Eliza fyrir utan Skalla í …
Arna, Dagur, Skalla-Gulla, Guðni og Eliza fyrir utan Skalla í Árbæ. mbl.is/Arnþór

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, eiginkona hans, Arna Dögg Einarsdóttir, og yngsta dóttir þeirra, Móeiður Dagsdóttir, buðu forsetahjónunum, Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid, upp á ís í Skalla í dag. Var það í opinberri heimsókn forsetahjónanna til Reykjavíkur. 

Það var Móeiður sem átti hugmyndina að því að bjóða forsetahjónunum upp á ís í Skalla. Þangað fer hún reglulega í ísbíltúr með foreldrum sínum. Því var við hæfi að hún legði leið sína í sjoppuna til að fá sér ís með forsetahjónunum og foreldrum sínum. 

Dagur var fastagestur á Skalla á yngri árum

Móeiður og fjölskylda eru ekki þau einu sem venja komur sínar í Skalla því Guðni kveðst koma þar reglulega við. Er það ýmist eftir sundferðir eða kappleiki, hvort heldur sem farið er þangað til að fagna sigri eða gráta tap. 

Skalla-Gulla tók á móti hópnum. Hún hefur starfað á Skalla síðan árið 1984 og segist orðið þekkja Dag og fjölskyldu vel eftir ferðir þeirra í sjoppuna. Þá man hún vel eftir því þegar Dagur var yngri og bjó í Árbænum. 

„Hann var svo mikið hérna sem strákur af því að hann er Árbæingur, bjó svo lengi hérna og kom oft í Skalla,“ segir Gulla, sem var uppnumin yfir því að bæði forseta- og borgarstjórahjónin hefðu lagt leið sína í svona litla sjoppu. 

Skalla-Gulla tók vel á móti gestunum á bílastæðinu.
Skalla-Gulla tók vel á móti gestunum á bílastæðinu. mbl.is/Arnþór

Forsetahjónin ekki mikið fyrir bragðaref

Það var ekki annað að sjá en að Guðni væri hæstánægður með ísferðina. Hann fékk sér lítinn ís í brauðformi. Það er sá ís sem Guðni kveðst helst velja sér í ísferðum. 

„Ég fæ mér venjulegan ís eins og ég fékk mér í gamla daga,“ segir hann og bætir síðan við: 

„Mér finnst það langbest, þá fyllist ég ekki valkvíða og þá þarf ég ekki að taka eina ákvörðunina enn,“ segir Guðni og hlær. 

Aðspurður segist forsetinn ekki vera mikið fyrir bragðaref. Hann myndi þó velja sér jarðaber, lakkrís og kókoskúlur ef hann ætti að fá sér einn slíkan. 

Guðni segist hrifnastur af venjulegum ís eins og hann fékk …
Guðni segist hrifnastur af venjulegum ís eins og hann fékk sér í gamla daga. mbl.is/Arnþór

Eliza er á sama máli og Guðni. Hún er ekki mikið fyrir bragðaref. Henni þykir bragðarefur samt sem áður góður, en segir skammtinn aðeins of stóran.

Aðspurð segir Eliza þó líklegt að hún myndi fá sér kökudeig, Oreo-kex og kannski mangó. „Er það skrítið?“ spurði hún síðan, áður en hún ákvað að blandan yrði héðan í frá kölluð Forsetafrúin.

Dagur velur sér það sama og Arna í bragðarefinn

Dagur, Arna og Móeiður eru, ólíkt forsetahjónunum, mikið fyrir bragðaref. Kokhraustur sagðist Dagur ávallt fá sér jarðaber, lakkrískurl og Snickers. Þegar blaðamaður sneri sér síðan að Örnu og spurði hvað hún myndi velja í sinn bragðaref, sagði hún:

„Hann er greinilega að stela minni uppskrift, það er alltaf Snickers, jarðaber og lakkrískurl.“ 

Eplið virðist ekki falla langt frá eikinni því Móeiður, sem fékk sér bragðaref á Skalla, valdi svipaða uppskrift. Lakkrískurl og jarðaber – en þó kökudeig í stað Snickers.

Guðni, Eliza og Dagur veltu fyrir sér hvað þau myndu …
Guðni, Eliza og Dagur veltu fyrir sér hvað þau myndu fá sér í bragðarefinn á meðan starfsmaður Skalla afgreiddi þau um ís. mbl.is/Arnþór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert