Ærðust af fögnuði yfir hugmyndum borgarstjóra

Heimsókn forseta Íslands í Reykjavík - Unglingar í Breiðholti í …
Heimsókn forseta Íslands í Reykjavík - Unglingar í Breiðholti í Austurbergi. Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarstjóri ætlar í næsta mánuði að funda með fulltrúum nemenda á unglingastigi í Reykjavík með það fyrir augum að skoða hvort rétt sé að hefja skólastarf síðar á morgnana.

Þetta tilkynnti hann á fundi með unglingum í Breiðholti í gær, en þar var hann í för með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, sem var í opinberri heimsókn í Reykjavík.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hóf erindi sitt á að rifja upp að 37 ár væru liðin frá því forseti Íslands kom síðast í opinbera heimsókn til höfuðborgarinnar.

Það væri því ábyrgðarhluti að velja það sem ætti að sýna forsetanum. „Við vildum hitta unglingana í Breiðholti því á þessum degi erum við að sýna það sem við erum stolt af.“

Kærustur bæði í Neðra- og Efra-Breiðholti

Sagði hann unglingana geta verið stolta af starfinu í skólanum, frístundum og lífinu í hverfinu.

Rifjaði hann upp að sjálfur hefði hann verið alinn upp í Árbænum, en verið með annan fótinn í Breiðholti. „Ég veit að konan mín er með mér hérna, en ég átti síðan [ræskir sig] kærustur, eina í Neðra-Breiðholti og aðra í Efra-Breiðholti,“ sagði Dagur og uppskar bæði hlátur og fagnaðarlæti frá unglingunum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði unglingana líka.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði unglingana líka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skrítið að skipulag skólastarfs miðist ekki við líkamsklukkuna

Næst kom hann sér að aðalatriði erindisins og sagðist ætla að hitta fulltrúa nemenda í öllum skólum Reykjavíkur í desember á fjarfundi. Sagði hann að þar þyrfti að ræða hvort hefja ætti skólastarfið síðar á morgnana.

Við þessar fregnir ærðust nemendur af fögnuði og voru gríðarleg fagnaðarlæti í sal Austurbergs.

Sagði Dagur það vera sér mikið hjartans mál að fólk svæfi lengur, sérstaklega unglingar. Þeir ættu það til að fara seinna að sofa en aðrir. „Skrítið að við höfum skipulagt skólann og samfélagið þannig að unglingar þurfi að vakna fyrr en líkamsklukkan segir,“ bætti Dagur við.

Bað hann nemendur um að nýta tímann fram í desember til að hugsa þetta og hvort þeir teldu það góða hugmynd að færa skólastarfið aðeins aftar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert