„Eigum við ekki bara að byrja með autt blað?“

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks, á Pengingamálafundi Viðskiptaráðs á fimmtudaginn.
Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks, á Pengingamálafundi Viðskiptaráðs á fimmtudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks, telur að regluverkið í kringum skipulags- og byggingamál hafi flækst með hverju árinu. Hann sagðist vilja sjá kerfið endurskrifað og að byrjað verði með autt blað.

„Af einhverjum ástæðum erum við komin með kerfi sem gerir það að verkum að allt tekur margfalt lengri tíma og er þar af leiðandi miklu dýrara. Ég held að þetta flækist með hverju árinu.

Við erum með eitthvað regluverk og erum alltaf að snýta við það. Það þarf kannski að bæta það eitthvað, og oft er verið að því, en það endar með að við erum komin með svo stórt og þungt kerfi að það er bara hætt að þjóna tilgangi sínum,“ segir Gylfi.

Gylfi tók þátt í pallborðsumræðum á Peningamálafundi Viðskiptaráðs á Hilton Reykjavík Nordica á fimmtudaginn. mbl.is tók Gylfa tali að loknum fundinum.

Hætt að þjóna tilgangi sínum

Gylfi sagði þetta aukna flækjustig regluverksins ekki endilega hafa skilað sér í betra skipulagi og hvorki betri byggingum né meiri neytendavernd.

Hann sagði að einhverjir starfshópar vinni að því að reyna að skipuleggja byggingareglugerðir og reyni að vinna í að gera þetta að einu ferli, en sjálfur hefði hann viljað byrja upp á nýtt.

„Ég hefði viljað að við spyrðum okkur hverjum við séum að þjóna með öllu þessu regluverki og flækjustigi. Ef við spyrjum okkur að því er ég viss um að við náum sama árangri en á miklu einfaldari hátt og værum þess vegna að valda minni sóun í kerfinu.“

Allt í lagi að hafa draumsýn

Hann sagði margt gott í kerfinu og að heildarendurskoðun myndi taka tíma.

„Við þurfum að setjast niður og skoða hvernig við viljum hafa þetta til framtíðar. Það mun taka okkur einhver ár að breyta þessu en eigum við ekki að bara að byrja með autt blað?“

Hefurðu trú á því að það geti gerst?

„Nei,“ sagði Gylfi og hló. „Ég held að það séu of margir sem koma að og of margir sem hafa álit á þessu. Ég held að það muni ekki nást sátt um þetta en það er allt í lagi að hafa draumsýn þó maður hafi ekki kannski ekki mjög mikla trú á því að draumurinn rætist,“ sagði hann og glotti.

Byggingaraðilinn brennir peningum

Talið barst að fjármagnskostnaði byggingaraðila sem Gylfi sagði ótrúlega stórt hlutfall. Sagði hann týpískt fjölbýlishúsaverkefni sennilega fjármagnað með um 30% eigin fé og 70% lánsfé. Þannig sagði hann að fyrirtæki í atvinnugreininni þurfi að hafa mjög sterkt og mikið eigið fé.

„Sölutími hefur lengst um fimm og hálfan mánuð – þetta eru engar smá tölur í þessu samhengi. Þetta er mjög fjármagnsfrek atvinnugrein.“

Sagði hann að byggingaraðilinn brenni í raun peningum bæði á byggingartímanum og alveg þar til verkefnið er selt.

„Það er kannski vandamálið núna, með að fara í ný verkefni að það er minni velta á eigin fénu. Því á meðan þú selur ekki er allt eigið fé bundið og þú kemur því ekki af stað inn í næsta verkefni.

Þannig er algjörlega nauðsynlegt að byggingaraðilar hafi sterkt og mikið eigið fé. Ég held reyndar að það felist mikil neytendavernd í því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert