Forsætisnefnd Alþingis, sem fjallar um mál er varða siðareglur alþingismanna, mun ekki taka upp mál Arndísar Önnu K. Gunnarsdóttur, þingkonu Pírata, að eigin frumkvæði. Þetta segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Þingkonan var handtekin á skemmtistaðnum Kíkí á föstudaginn. Í samtali við mbl.is í gær staðfesti Arndís Anna þetta.
„Dyraverðir óskuðu eftir aðstoð. Dyraverðir voru búnir að snúa mig niður vegna þess að það átti að henda mér út fyrir að hafa verið of lengi á salerninu, það er bara svoleiðis,“ sagði Arndís við blaðamann í gær. Þegar hún streittist á móti hafi dyraverðir óskað eftir aðstoð lögreglu.
Að sögn Birgis hefur nefndinni ekki borist erindi er varðar þetta mál. Þá hefur nefndin ekki frekari upplýsingar en þær sem komið hafa fram í fjölmiðlum.
„Það hefur ekkert komið til okkar út af þessu, hvorki upplýsingar né athugasemdir, þannig að ég geri ekki ráð fyrir því að við tökum þetta fyrir að eigin frumkvæði.“
Spurður hvort hann viti til þess að málið verði rætt á Alþingi, segir Birgir það verða að koma í ljós. „Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um eitt eða neitt í því sambandi.“
Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, kvaðst í samtali við Morgunblaðið ekki kannast við dæmi þess efnis að þingmaður hafi verið handtekinn áður.
Aðspurður kvaðst Birgir heldur ekki muna eftir slíku dæmi en tók þó fram að hann hefði ekki skoðað það sérstaklega.