Ráðherrarnir fjórir sem héldu til Grindavíkur í dag, til að kynna sér aðstæður, voru sammála um mikilvægi þess að fara á staðinn til upplifa aðstæður í Grindavík og öðlast þannig betri skilning á stöðunni.
Að þessu sinni voru það Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og ferðamálaráðherra sem héldu til Grindavíkur í fylgd Otta Rafns Sigmarssonar, björgunarsveitarmanns hjá Þorbirni og Boga Adolfssonar, formanns björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.
Hópurinn byrjaði á því að fara um bæinn og skoða ummerki eftir jarðhræringarnar. Því næst héldu þau í björgunarsveitarhúsið í Grindavík, þar sem hópurinn ræddi við viðbragsaðila og kynnti sér þá starfsemi sem nú er í björgunarsveitarhúsinu.
Lilja segir afleiðingarnar af jarðhræringunum séu umfangsmiklar. Sem dæmi hafi sum hús hreinlega gliðnað í sundur á þessum örlagaríka föstudegi, á meðan önnur virtust standa óskemmd.
Hún segir fróðlegt að hafa fengið að fara í gegnum bæinn í fylgd björgunarsveitarinnar, til að fá dýpri skilning á stöðunni, en jafnframt dýpri skilning á því hvernig hlutunum hefur verið forgangsraðað.
„Það er auðvitað miður að sjá þessa stóru sprungu sem liggur alveg í gegnum bæjarfélagið. Maður var búinn að sjá myndir af þessu, en að sjá það berum augum hvernig hún liggur alveg í gegnum bæinn, það er sérstakt. En það sem skiptir máli til framtíðar er uppbygging bæjarins, hér er öflugt fólk og öflug fyrirtæki,“ segir Lilja sem gleðst yfir því hversu margir hafi hug á að því að snúa aftur til Grindavíkur.
„Ótrúlegt að sjá þetta með eigin augum og í rauninni allt allt öðruvísi en að sjá myndir í sjónvarpi eða blöðum. Það var sérstaklega áhrifaríkt að koma á hjúkrunarheimilið þar sem að húsið hefur á nokkrum stöðum færst í sundur. Þar sér maður vel þessi ótrúlegu átök sem hafa átt sér stað í jarðskorpunni,“ segir Guðmundur Ingi.
Guðmundur gleðst yfir því að atvinnustarfsemi í bænum sé að fara af stað og bindur vonir við að bráðlega verði jafnframt óhætt fyrir íbúa að snúa aftur heim. Þangað til segir hann stjórnvöld staðráðin í því að veita alla þá aðstoð sem hægt er.