„Ótrúlega skýr skipting á milli foreldranna“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB,
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Konur minnka í mun meiri mæli starfshlutfall sitt til að samræma betur vinnu og heimilislíf, lengja frekar fæðingarorlof og bera mun meiri ábyrgð á samskiptum við skóla barna.

Þetta kemur fram í niðurstöðum spurningakönnunar Vörðu - Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins meðal foreldra barna á aldrinum 12 mánaða til 12 ára á Íslandi.

Þetta hefur mikil áhrif á tekjumöguleika kvenna en atvinnutekjur þeirra eru 21% lægri á ársgrundvelli en karla, miðað við tölur Hagstofu Íslands.

Einnig velja konur sér frekar starfsvettvang til að auðvelda samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs. Fjárhagsstaða einhleypra foreldra er jafnframt mun verri en sambúðarfólks, samkvæmt niðurstöðunum.

Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, kynnir niðurstöðurnar á fundinum í …
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, kynnir niðurstöðurnar á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Konur bera enn mesta þungann

„Þrátt fyrir eina mestu atvinnuþátttöku kvenna í heiminum og að Ísland komi vel út í alþjóðlegum samanburði á jafnrétti kynjanna bera konur enn þá meiri þunga af vinnuálagi vegna heimilisstarfa og barnauppeldis. Um þriðjungur kvenna er í hlutastarfi, langflestar til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs,” segir í tilkynningu frá Vörðu.

53% svarenda í spurningakönnuninni voru með háskólamenntun. Illa gekk að fá svör frá fólki í ósérhæfðum störfum og með grunnskólamenntun.

Þegar spurt var hver hefði frumkvæðið að samskiptum við skóla eftir kyni svöruðu 81% kvenna „alfarið ég“ eða „að meira leyti ég“. Hlutfall karla var aftur á móti 11%. Þegar spurt var við hvern skólinn hefði samband ef eitthvað kemur upp á í skólastarfinu eftir kyni var hlutfallið það sama, sem þýðir að skólarnir hafa mun frekar samband við mæðurnar.

Börn á leikskóla.
Börn á leikskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jafnréttið komið styttra á veg

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, var viðstödd blaðamannafund í morgun þar sem niðurstöðurnar voru kynntar af Kristínu Hebu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vörðu.

Sonja Ýr segir áhugavert að í rannsókninni hafi verið spurt beint út í atriði eins og í hvort foreldrið leik- og grunnskólinn hringir frekar vegna ýmissa mála. Þar voru mæðurnar í yfirgnæfandi meirihluta.

„Við teljum okkur hafa haft hugmynd um hvernig þetta er en þetta var svo ótrúlega skýr skipting á milli foreldranna. Það hefur verið mikil umræða um bæði aðra og þriðju vaktina. Það sem stríðir okkur öllum er að við teljum gjarnan að jafnréttið er komið lengra heldur en það er í raun og þessar niðurstöðu varpa svo skýru ljósi á það,” segir hún. 

„Við vitum að ef við ætlum að stuðla að auknu jafnrétti þurfum við að grípa til aðgerða sem varða þennan stóra þátt, sem er samræming fjölskyldu og atvinnulífs,” bætir hún við.

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki raunverulegt val um ólaunuðu störfin

Sonja Ýr segir það skýrt í niðurstöðum rannsóknarinnar að konur taki frekar orlofsdaga eða launalausa daga vegna barna sinna heldur en karlar. Það að konurnar beri megin ábyrgðina hefur síðan áhrif á launin þeirra, sem verða lægri fyrir vikið.

„Svo vitum við líka að það að konur eru almennt á lægri launum, út frá þeirri starfsstétt sem þær eru í eða út frá vanmati á kvennastörfum, þá býr það til inni á heimilunum að það er ekki raunverulegt val um hver tekur á sig ólaunuðu störfin á annarri og þriðju vaktinni. Auðvitað er það sá sem er tekjuhærri sem fer frekar til vinnu. Feður eru þannig að fara á mis við tækifærið til að vera með börnunum sínum,” bendir hún jafnframt á.

Vonast eftir frumvarpi um umönnunarbil

Á fundinum sagðist Sonja vonast eftir því að frumvarp líti dagsins ljós á Alþingi um umönnunarbil. Spurð nánar út í það að fundi loknum segir hún að á hinum Norðurlöndunum hafi fæðingarorlof verið til lengri tíma en hér á landi 12 mánuðir. Þar hafi líka verið lögfestur réttur barna til leikskólapláss eða dagvistunar að loknu fæðingarorlofi.

„Þetta er það sem hefur mest áhrif á tekjutap kvenna og það að þær séu að draga úr störfum eða jafnvel hætta á vinnumarkaði. Ef við fengjum að velja eitthvað eitt væri þetta það sem þyrfti að stökkva fyrst á,” segir hún.

Sonja segir félagslega mótun einnig hafa sitt að segja um stöðu mála. „Sumir hafa viljað stilla þessu upp í einhver kynjastríð, að þetta sé eitthvað sem konur vilji. Þær séu jafnvel að taka til sín ábyrgðina og leyfi engum öðrum að komast upp með það. En ég held að það sé meira þessi félagslega mótun og líka fjárhagsstaðan, að launin séu lægri,” segir hún.

Þarf að jafna launin

Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) var einnig viðstaddur fundinn. Hann segir það standa upp úr eftir að hafa hlustað á niðurstöður rannsóknarinnar að Íslendingar séu ekki komnir nógu langt í jöfnun á aðstöðu karla og kvenna varðandi heimilislíf.

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ. mbl.is/Árni Sæberg

„Við getum gert betur í kjarasamningum og það snýst þá aðallega um jöfnun á launum,” segir Finnbjörn og nefnir að einnig þurfi að gefa í þegar kemur að leikskólum og fæðingarorlofi. Að leikskólar taki við börnum að loknu fæðingarorlofi.

„Varðandi hugarfarið um það hvort foreldrið eigi að vera á vaktinni hverju sinni, að ef við getum jafnað það þannig að það sé valkvætt hjá foreldrum þá erum við komin á góðan stað,” segir hann einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert